Undirritun kjarasamninga um þrjátíu stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins hefur dregist fram eftir öllum degi. Vonir standa þó til að hægt verði að undirrita samningana í kvöld. Umtalsverðar breytingar verða gerðar á lögum um verðtryggingu lána og gripið til fjölda annarra aðgerða að hálfu stjórnvalda í tengslum við samningana.
Forystufólk nítján félaga Starfsgreinasambandsins og níu félaga innan Landsambands verslunarmanna hefur setið sleitulaust í húsakynnum ríkissáttasemjara undanfarna tvo sólarhringa. Ekki tókst að kynna innihald samninga og aðgerðir ríkisstjórnarinnar seinnipartinn í gær eins og til stóð. Gefið var út að stefnt væri að undirritun samninga klukkan 15.
Fjölmiðlar biður því fyrir utan skrifstofur ríkissáttasemjara frá því skömmu fyrir 15 eða allt þar til Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, kom fram og tilkynnti að ólíklegt væri að skrifað yrði undir fyrir eða á meðan á kvöldfréttatímar útvarps- og sjónvarpsstöðvanna væru í loftinu, en engu að síður væri stefnt að því að skrifa undir samninga í kvöld.
Ýmislegt hefur spurst út um innihald aðgerða stjórnvalda og samninganna. Engin verðtryggð lán verði veitt frá árinu 2020 til lengri tíma en 25 ára. Lágmarkslengd verðtryggðra lána verði tíu ár. Húsnæðisliðurinn verði tekinn úr vísitölu verðtryggðra lána. Ákvæði verða í kjarasamningum um uppsögn þeirra, lækki Seðlabankinn ekki vexti. Skattar verði lækkaðir um níu þúsund krónur á mánuði hjá lágtekjufólki. Lægstu laun hækki um 90 þúsund krónur á mánuði á þremur árum en almenn hækkun verði 70 þúsund krónur á mánuði. Þá verði vinnuvikan stytt en það ráðist af útfærslu á hverjum vinnustað.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrsti forseti Alþýðusambandsins, hafði þetta að segja um væntanlega samninga í Bítinu á Bylgjunni í dag.
„Það er náttúrulega alltaf þannig, eins og er í kjarasamningsgerð með aðkomu stjórnvalda, að alltaf vill maður meira. En ég tel að það sem ríkisstjórnin er að koma með núna er mun meira en við höfum séð áður. Það er bara einfaldlega þannig,“ segir Vilhjálmur.
Ríkisstjórnin mun ekki kynna innihald sinna aðgerða fyrr en skrifað hefur verið undir samningana.
