Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Fram 29-26 | Langþráður sigur Mosfellinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar skoraði sex mörk.
Elvar skoraði sex mörk. vísir/bára
Afturelding vann sinn fyrsta sigur í sex leikjum þegar liðið lagði Fram að velli, 29-26, í Mosfellsbænum í 21. og næstsíðustu umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Fram var miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með fjórum mörkum, 12-16, að honum loknum.

Gestirnir úr Safamýrinni skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og náðu sex marka forskoti, 12-18.

Þá fyrst hrukku Mosfellingar í gang, ekki síst Arnór Freyr Stefánsson sem var frábær í seinni hálfleik. Afturelding fékk enga markvörslu í þeim fyrri en Arnór varði rúman helming þeirra skota sem hann fékk á sig eftir hlé.

Afturelding breytti stöðunni úr 17-20 í 24-21 á tíu mínútna kafla. Fram svaraði með þremur mörkum í röð en heimamenn sigu aftur fram úr undir lokin. Á endanum munaði þremur mörkum á liðunum, 29-26.

Afturelding er í 6. sæti deildarinnar og endar þar. Staða Fram er hins vegar tvísýn. Liðið er einu stigi frá fallsæti og þarf helst stig gegn ÍBV í lokaumferðinni til að bjarga sér.

Af hverju vann Afturelding?

Fyrri og seinni hálfleikurinn voru eins og svart og hvítt, eða blátt og rautt. Líkt og í síðustu leikjum á undan þessum var flottur taktur í Fram-liðinu, bæði í vörn og sókn, og þeir stjórnuðu leiknum.

Einhverra hluta vegna hættu þeir að gera það sem gekk svo vel í fyrri hálfleik og hleyptu Mosfellingum inn í leikinn. Sóknin varð einhæfari með hverri mínútunni og Arnór gerði gestunum lífið leitt með frábærri markvörslu.

Elvar Ásgeirsson spilaði líka mun betur í seinni hálfleik en þeim fyrri og sóknarleikur Aftureldingar var miklu beittari.

Þrátt fyrir ágætis áhlaup og þrjú mörk í röð hjá Fram hélt Afturelding haus og landaði stigunum tveimur.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór átti frábæran seinni hálfleik eins og fyrr sagði og Elvar lét til sín taka eftir slakan fyrri hálfleik.

Finnur Ingi Stefánsson var hins vegar góður allan tímann og átti sennilega sinn besta leik í vetur. Hann skoraði tíu mörk úr aðeins ellefu skotum og nýtti m.a. öll fimm vítin sín.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var markahæstur hjá Fram með átta mörk og var þeirra öflugastur í sókninni. Það mæddi hins vegar of mikið á honum undir lokin.

Hvað gekk illa?

Leikur Aftureldingar var í molum í fyrri hálfleik, hvert sem litið var. Mosfellingar héldu samt alltaf áfram og misstu ekki móðinn þrátt fyrir slakt gengi að undanförnu.

Að sama skapi voru Framarar mjög góðir í rúmar 30 mínútur en botninn datt algjörlega úr leik þeirra. Vörnin slitnaði of oft í sundur, markvarslan var misjöfn og ógnunin hægra megin í sókninni var engin.

Hvað gerist næst?

Í lokaumferðinni á laugardaginn kemur sækir Afturelding botnlið Gróttu heim á meðan Fram fær Íslandsmeistara ÍBV í heimsókn.

Fái Fram stig er það öruggt með áframhaldandi sæti í Olís-deildinni, sama hvernig leikur Akureyrar og ÍR fer. Fram heldur sér einnig uppi svo lengi sem Akureyri vinnur ekki ÍR.

Einar Andri: Hugarfarið breyttist í seinni hálfleik

Það blés ekki byrlega fyrir Aftureldingu í upphafi seinni hálfleiks gegn Fram í kvöld. Mosfellingar lentu sex mörkum undir og voru komnir með bakið upp við vegg. En þá loksins byrjuðu þeir að spila almennilega og nógu vel til að landa sigri, 29-26.

„Fyrst og síðast breyttist hugarfarið. Menn fóru að hafa gaman að þessu. Við fengum ekki neina markvörslu í fyrri hálfleik og vörnin var heldur ekki góð. Svo small það og þá kom þetta. Við höfum verið í brekku og kannski hefur það haft einhver áhrif,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir leik.

Mosfellingum hefur ekki gengið vel að undanförnu og voru án sigurs í fimm leikjum fyrir leikinn í kvöld. Einar Andri segir að í ljósi þess hafa verið sérstaklega mikilvægt að klára leikinn í kvöld.

„Engin spurning. Við höfum spilað vel í mörgum leikjum eftir jól þótt uppskeran hafi verið rýr. Við höfum átt mjög erfiða leiki en þetta gefur okkur sjálfstraust. Það hefur vantað upp á það,“ sagði Einar Andri.

Hann var að vonum ánægður með frammistöðu Arnórs Freys Stefánssonar í marki Aftureldingar í seinni hálfleiknum. Þá skellti hann í lás og varði rúman helming þeirra skota sem hann fékk á sig.

„Þegar vörnin hefur verið góð hefur hann skilað 40% markvörslu. Það er mín og strákanna í vörninni að sjá til þess að hún virki. Arnór er frábær markvörður, einn sá allra besti í deildinni og hefur sýnt það í allan vetur,“ sagði Einar Andri að endingu.

Guðmundur Helgi: Á ekki skýringu á þessu

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var þungur á brún eftir tapið í Mosfellsbænum í kvöld.

Hans menn spiluðu stórvel í fyrri hálfleik en misstu dampinn í þeim seinni og enduðu á því að tapa með þriggja marka mun.

„Við hættum bara. Ég á ekki skýringu á þessu. Ég verð að horfa aftur á leikinn til að átta mig á því hvað gerðist,“ sagði Guðmundur eftir leik.

Framarar hafa ekki langan tíma til að gráta tapið í kvöld. Á laugardaginn mæta þeir ÍBV í lokaumferð Olís-deildarinnar og falldraugurinn er enn á sveimi í Safamýrinni.

„Við erum bara í sömu stöðu og verðum að fá stig. Jafntefli dugar en við verðum allavega að ná í stig,“ sagði Guðmundur.

Fram hefur verið á ágætri siglingu en frammistaðan í seinni hálfleik í kvöld var mikil afturför frá síðustu leikjum.

„Það hefur verið stígandi í mínu liði. En allt sem við gerðum í seinni hálfleik var ekki í lagi. Menn fóru að drippla og gera þetta sjálfir en ekki eins og lið. Þegar menn fara að spila sóló byrja markverðir andstæðinganna að verja. Arnór varði frábærlega í seinni hálfleik,“ sagði Guðmundur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira