Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA 30-25 | Nýliðarnir öruggir í deildinni þrátt fyrir tap

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Anton Rúnarsson, leikmaður Vals.
Anton Rúnarsson, leikmaður Vals. vísir/vilhelm
Valur vann öruggan fimm marka sigur á KA, 30-25, á Hlíðarenda í kvöld. Sigur heimamanna var aldrei í hættu en þeir leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 16-13. 

Valur var smá tíma að finna taktinn og voru það gestirnir að norðan sem skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins. Leikurinn var síðan jafn fyrsta korterið en eftir að Valur náði þriggja marka forystu, 9-6, var leikurinn þeirra. Þeir höfðu undirtökin á leiknum það sem eftir lifði og leiddu að fyrri hálfleik loknum með þremur mörkum, 16-13. 

KA mættu einbeittir til leiks í síðari hálfleik og náði að jafna leikinn með góðu áhlaupi, 17-17. Lengra komust þeir ekki og Valur var komið í þriggja marka forystu á ný, 20-17. KA gekk illa að skora bróðurpartinn af síðari hálfleik, vörn Valsmanna var þétt og neyddust leikmenn KA í erfið skot sem auðvelt var fyrir Daníel Frey að verja. Valur náði 7 marka forystu þegar mest lét, 26-19. 

Eftir þetta var leikurinn búinn, það var formsatriði fyrir sterkt lið Vals að klára þennan leik og þeir gerðu það skynsamlega. Lokatölur í Origo-höllinni, 30-25. 

Af hverju vann Valur? 

Valur hafði undirtökin á leiknum lengst af og þeir eru erfiðir við að eiga þegar þeir stjórna leiknum. Þetta var ekki þeirra besti leikur en síðari hálfleikurinn var góður, þar stóð vörnin vel og Daníel Freyr Andrésson varði vel fyrir aftan þá. Þeir gátu keyrt hraðar sóknir á KA og refsuðu þeim vel. 

Hverjir stóðu upp úr?

Róbert Aron Hostert var maður leiksins í kvöld, hann tók yfir sóknarlega hjá Val. KA byrjaði strax á því að taka Magnús Óla Magnússon úr umferð og þar var færi fyrir Róbert Aron að stíga upp sem og hann gerði. Róbert var markahæstur í liði Vals með 9 mörk, Anton Rúnarsson var á eftir honum með 7 mörk. 

Daníel Freyr Andrésson, markvörður Vals, kom inná í seinni hálfleik og var frábær. Hann varði 11 bolta og var með tæpa 50% markvörslu. 

Í liði KA var Tarik Kasumovic atkvæðamestur, hann skoraði 9 mörk en á eftir honum var Áki Egilsnes með 6 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Sóknarleikurinn hjá KA í seinni hálfleik var dapur, það gekk lítið hjá þeim og þeir áttu erfitt með að skora og fengu í kjölfarið auðveld mörk í bakið. Valur stjórnaði tempóinu í leiknum og það var erfitt fyrir KA að halda í við þá. 

Hvað er framundan? 

Það er aðeins ein umferð eftir, loka umferðin verður spiluð á laugardagskvöldið. KA fær þá bikarmeistara FH í heimsókn norður til Akureyrar á meðan Valur mætir deildarmeisturum Hauka á Ásvöllum. 

 

Stefán: Mætum sterkari til leiks á næsta ári

Stefán Árnason, þjálfari KA, segist stoltur af strákunum þrátt fyrir tap í dag en liðið hefur tryggt sér sæti í Olís-deildinni að ári.

„Þetta var erfitt, Valsararnir eru að komast í gang og léku mjög vel í kvöld.“

„Þeir spila sterkan varnarleik lengst af og við eigum erfitt með að skora á köflum. Við byrjuðum vel en missum þá svo frammúr okkur í lok fyrri hálfleiks. Við jöfnuðum svo í upphafi seinni með góðu áhlaupi en þeir komast svo 6 mörk í plús, þá var leikurinn farinn.“ sagði Stefán um gang leiksins

„Þeir keyrðu gífurlega vel á okkur, það er ekkert leyndarmál að við ætluðum að reyna að stoppa hraðaupphlaupin hjá þeim en þeir eru með eitt besta hraðaupphlaups liðið í deildinni og þeir refsuðu okkur mikið í seinni hálfleik“

Stefán segir að helsta markmið liðsins hafi verið að halda sér uppi í deildinni og það hefur tekist. Það hafi aðeins verið draumur að geta tekið þátt í úrslitakeppninni en sá draumur er úti eftir úrslit kvöldsins. KA getur jafnað ÍR að stigum en ÍR-ingar eiga innbyrgðis sigur á KA

„Úrslitakeppnis draumurinn er farinn. Það var svo sem aldrei markmiðið fyrir tímabilið, heldur að halda okkur uppi í deildinni. Mér sýnist á öllu að það hafi tekist og að sæti okkar sé tryggt. Við erum gífurlega ánægðir með það að halda okkur uppi, við erum stoltir af því.

„Kannski var þessi leikur í dag var ekki sá besti en við erum hrikalega ánægðir að geta tekið þátt í deild þeirra bestu aftur og ætlum að mæta ennþá sterkari til leiks að ári,“ sagði Stefán að lokum.



Snorri Steinn: Höfum farið of illa að ráði okkar

„Ánægður með sigurinn og tvö stig“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að leik loknum

„Við vorum með undirtökin á leiknum lungað af leiknum. Við vorum svolítið lengi í gang, vorum værukærir en það kom ekki að sök. Við náðum svo undirtökunum í fyrri hálfleik en ég hefði kannski viljað vera meira yfir og KA-menn geta eflaust sagt að þeir hefðu viljað vera nær okkur enn þetta var fínn sigur“

„Við getum eflaust spilað betur, það var líka allskonar taktík sem við þurftum að bregðast við eins og þegar KA spilaði 7 á 6 en þetta var heldur ekkert léleg fammistaða“

Magnús Óli Magnússon náði sér ekki á strik í dag en þá steig Róbert Aron Hostert upp, Snorri hefur oft hrósað sínum leikmönnum og hans leikmannahópi og segir það auðvitað gott að vera með slíka breidd af góðum leikmönnum

„Við höfum sagt það áður að ég kvarta ekki yfir breiddinni sem við höfum. Maggi (Magnús Óli Magnússon) hefur verið frábær í vetur en Róbert Aron var mjög góður í dag og það er ekkert meira um það að segja“

Snorri segir að það hefði verið gaman að fara í loka leikinn gegn Haukum með eitthvað undir en svo verður ekki eftir að Haukar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í Vestmannaeyjum í kvöld. 

„Það breytir því ekki að við höfum farið aðeins of illa að ráði okkar og við erum því ekki í neinu bílstjórasæti. Það hefði verið gaman að fara í loka umferðina með eitthvað undir“ sagði Snorri Steinn að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira