Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 27-27 | Haukar deildarmeistarar

Einar Kárason skrifar
Úr leik liðanna fyrr í vetur.
Úr leik liðanna fyrr í vetur. vísir/vilhelm
Tvö lið á blússandi siglingu mættust þegar heimamenn í ÍBV tóku á móti rauðklæddum Hafnfirðingum í liði Hauka. Það var til alls að vinna fyrir gestina en allt annað en tap þýddi að deildarmeistara titillinn væri á leið í Schenker höllina á Ásvöllum.

Leikið var af hörku frá fyrsta flauti og það tók ekki langan tíma að draga til tíðinda en strax eftir 5 mínútna leik áttust Daníel Örn Griffin úr ÍBV og Haukamaðurinn Ásgeir Örn Hallgrímsson við sem endaði með ósköpum. Daníel Örn fékk þungt höfuðhögg og heilahristing en Ásgeir Örn beint rautt spjald og þar með lauka leik þeirra beggja.

Eyjamenn, sem sátu í 5. sæti deildarinnar fyrir leik, ætluðu sér ekki að gefa toppliði deildarinnar neitt eftir og var jafnræði með liðunum framan af leik en rúmlega fyrstu 20 mínúturnar voru aldrei fleiri en 2 mörk milli liðanna. Þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik minntu gestirnir okkur þó á af hverju þeir væru staddir á toppi deildarinnar og þegar farið var inn í hálfleik leiddur Haukamenn með 4 mörkum, 13-17.

Eyjamenn hafa sýnt okkur það margoft í vetur að þó að þeir fari inn í hálfleik nokkrum mörkum undir eru þeir hvergi nærri hættir. Hvítklæddir tóku hægt og rólega að saxa á forustu gestanna í síðari hálfleik með vaxandi varnarleik og markvörslu, sem ekki var nægilega góð í fyrri hálfleiknum. Tæpur stundarfjórðingur lifði leiks þegar ÍBV náði loksins að jafna metin og skiptust liðin bróðurlega á að skora mörkin það sem eftir lifði leiks.



Þegar 18 sekúndur voru eftir á klukkunni tóku Eyjamenn leikhlé í þeirri von um að að ná inn lokamarki leiksins. Ekki spilaðist nægilega vel úr þeirri sókn, sem endaði með því að aukakast var dæmt í þeirri andrá sem leiktíminn rann út. Kristján Örn Kristjánsson, hægri skytta ÍBV, hafði skorað úr aukakasti undir lok fyrri hálfleiks eftir að leiktíminn var runninn út og hafði þarna tækifæri til að gera slíkt hið sama.

Skotið fór af vörninni, í þverslánna og þaðan yfir markið. Niðurstaðan því jafntefli, 27-27, sem þýddi að Haukamenn hófu að dansa og syngja enda deildarmeistaratitillinn í höfn.

Af hverju fór sem fór?

Tvö alvöru lið að keppast um allt það sem í boði var. Eyjamenn voru aldrei að fara að leggjast á hliðina og leyfa Haukamönnum að ganga á lagið og taka titilinn á parketinu í Vestmannaeyjum og lögðu því allt undir en að sama skapi sýndu Hafnfirðingar af hverju þeir væru í efstu hillu. Niðurstaðan því jafntefli sem verður að teljast sanngjarnt.

Hvað gekk illa?

Markvarsla Eyjaliðsins var alls ekki nægilega góð í fyrri hálfleik en batnaði svo um munaði í þeim síðari. Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka, hlýtur einnig að vera svekktur með að hafa einungis náð að spila tæpar 5 mínútur áður en hann fauk af velli með beint rautt spjald. Ásgeir getur þó huggað sig við það að vera orðinn deildarmeistari.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá ÍBV skoruðu Fannar Þór Friðgeirsson og Kristján Örn Kristjánsson sitthvor 7 mörkin en hjá gestunum var Adam Haukur Baumruk með 8 mörk skoruð.

Sérstakt hrós fær dómaraparið sem var með fín tök á leiknum, þrátt fyrir mikinn hraða og öll þau læti sem leikurinn bauð upp á.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fara í höfuðborgina og eiga þar leik við Fram en Haukarnir fara áhyggjulausir inn í heimaleik gegn Valsmönnum

Gunnar: Stoltur af liðinu

„Ég er bara ótrúlega stoltur,” sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir leik. „Stoltur af strákunum og öllum í kringum liðið. Innan vallar sem utan. Þetta er ótrúlega stór og þétt liðsheild. Við erum búnir að landa þessu og þetta er sá titill sem erfiðast er að ná. Þú þarft að spila vel allt seasonið til að ná honum og við erum bara búnir að vera góðir í allan vetur.”

„Ég hef spilað hérna marga hörkuleiki. Stóra leiki. Þetta var kannski svona týpískur leikur hérna í Eyjum. Sveiflur í báðar áttir. Rautt spjald og allur pakkinn. Þetta var leikur sem maður átti von á. Eyjamenn hafa verið frábærir, sterkir eftir áramót og með flott lið þannig að við vissum að verkefnið væri erfitt.”

Gunnar er alls ekki óvanur því að lyfta titlum í Vestmannaeyjum eftir að hafa stjórnað liði ÍBV um árabil. Ef titlinum yrði ekki landað í Schenker höllinni, eru Eyjarnar þá næst ákjósanlegasti staðurinn? „Já. Maður fer í Herjólf. Alltaf þegar ég vinn titla fer ég í Herjólf. Það er alltaf gaman að fara í Herjólf með titil og ég trúi ekki öðru en að það verði flugeldasýning klukkan 7 í fyrramálið þegar við mætum á bryggjuna. Annars verð ég illa svikinn,” sagði Gunnar kíminn að lokum.

Erlingur: Komum alltaf til baka

„Svona er þetta. Þetta var bara hörkuleikur á móti deildarmeisturunum og ég ætla bara að nota tækifærið til að óska Haukum til hamingju með titilinn. Þeir eru verðskuldaðir deildarmeistarar,” sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV eftir leik.

„Það mátti búast við hörkuleik, og sú varð nú raunin. Sérstaklega eftir 5 mínútur þá sauð alllt upp úr og það tók smá tíma fyrir leikmenn að ná áttum aftur en úr varð bara hörkuleikur.”

Eyjamenn fóru inn í hálfleikinn 4 mörkum undir en héldu uppteknum hætti og buðu upp á flotta spilamennsku í þeim síðari. „Við fórum bara yfir leikinn okkar og þá sérstaklega kannski varnarleikinn. Þeir voru að koma á okkur, Adam (Haukur Baumruk) og Daníel (Þór Ingason) og sama skapi voru markverðirnir hjá okkur ekki að verja heldur en við löguðum það í seinni hálfleiknum og Björn var með einhverja 8 bolta varða í seinni hálfleik á móti einhverjum 2 í fyrri.”

„Ég er rosalega ánægður með baráttuna í liðinu.. Við komum alltaf til baka. Við erum búnir að gera það undanfarið og það er frábært að sjá. Við misstum Magnús (Stefánsson) út núna og verðum bara að sjá hvað verður með hann. Svo er ég bara alltaf jafn ánægður með mætinguna og stemmninguna í húsinu. Það er frábært að fá þennan stuðning,” sagði Erlingur að lokum.

Atli Már: Var ekkert rólegur

„Það er bara gaman að vera deildarmeistari,” sagði Atli Már Báruson, leikmaður Hauka, eftir leik. „Fínt að klára þetta fyrir síðasta leik. Ekki að vera að fara í eitthvað stress á móti Val á laugardaginn.”

„Eins og ÍBV byrjaði mótið, það var ekkert ÍBV. Þeir eru búnir að vera góðir undanfarið og það er alltaf gaman að spila í Eyjum. Það mæta margir og hérna eru þeir eitt besta lið landsins.”

„Við skoruðum einhver 17 mörk í fyrri og endum í 27. það var kannski svolítið erfitt að spila á þessa vörn ekki með örvhentan leikmann eftir að Geiri (Ásgeir Örn Hallgrímsson) fékk rautt þarna í byrjun.”

Þegar lítið var eftir af leiknum áttu Eyjamenn möguleika á að stela öllum stigum sem í boði voru og þar með setja kampavínið á ís hjá Haukum. Fór ekkert um rauðklædda? „Jú. Þeir náttúrulega skoruðu úr h*el..... fríkastinu í fyrri hálfleik þannig að ég var ekkert rólegur þegar hann var að taka fríkastið í lokin,” sagði Atli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira