Fótbolti

Fullkomin frammistaða markvarðar Empoli: Varði 17 skot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dragowski átti leik upp á tíu gegn Atalanta.
Dragowski átti leik upp á tíu gegn Atalanta. vísir/getty
Empoli getur þakkað markverði sínum, Bartlomiej Dragowski, fyrir jafnteflið sem liðið gerði við Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Leikar fóru 0-0 en það var eina tölfræðin sem var jöfn. Atalanta var með gríðarlega yfirburði í leiknum en mistókst á einhvern ótrúlegan hátt að koma boltanum í mark Empoli.

Atalanta átti 47 skot í leiknum gegn aðeins þremur hjá Empoli. Átján þessara skota fóru á markið en Empoli átti bara eitt skot á mark.

Dragowski átti draumaleik í marki Empoli og varði hvorki fleiri né færri en 17 skot. Tölur sem hvaða handboltamarkvörður sem er væri stoltur af.



Um met er að ræða en enginn markvörður hefur varið fleiri skot í einum og sama leiknum í fimm bestu deildum Evrópu síðan tölfræðisíðan WhoScored.com byrjaði að taka tölfræði úr þeim fyrir tíu árum.

Pólski markvörðurinn fékk tíu í einkunn fyrir frammistöðu sína hjá WhoScored.com og er fyrsti markvörðurinn í fimm bestu deildum Evrópu sem fær tíu í einkunn á tímabilinu.

Stigið var afar vel þegið fyrir Empoli sem er í 18. og þriðja neðsta sæti ítölsku deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti. Atalanta grætur hins vegar töpuð stig í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Atalanta er í 6. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Dragowski, sem er 21 árs, gekk í raðir Empoli í janúar á þessu ári á láni frá Fiorentina. Leikurinn gegn Atalanta í gær var hans áttundi fyrir Empoli og annar leikurinn þar sem hann heldur hreinu.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá nokkrar af markvörslum Dragowskis í leiknum gegn Atalanta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×