„Ég er djúpt snortinn yfir því að hljóta þessi mikilvægu verðlaun og að fólk hafi ánægju af því að hlusta,“ sagði Víkingur þegar hann veitti verðlaunum viðtöku í Lundúnum í kvöld.
Víkingur hlaut aðalverðlaun kvöldsins fyrir hljómplötu sína með flutningi á verkum Johanns Sebastian Bach sem var plata ársins þvert á flokka og þá fékk hann einnig verðlaun fyrir hljóðfæraleiksplötu ársins.
„Fagurlega smíðuð Bach samsetning eins og græðismyrsl fyrir eyrun,“ segir í rökstuðningi dómnefndar. Ef einhver plata gæti sýnt fram á tímaleysi Bachs, þá væri þetta hún.
Víkingur sagði að eitt það persónulegasta sem hægt væri að gera í tónlist væri að spila og taka upp tónlist eftir Bach. Hann kvaðst afar þakklátur fyrir hlý viðbrögð við plötunni.