„Hver einasti bæjarbúi er meðvitaður um þetta og allir taka þetta afar nærri sér, djúpt inn í hjartað. Þetta er okkur afar þungbært,“ segir Trond í samtali við fréttastofu. Fólk sé í sárum og gráti mikið.
Tveir eru í haldi norsku lögreglunnar vegna málsins, annar er grunaður um morð og hinn er grunaður um að vera meðsekur. Sá sem er grunaður um morðið er hálfbróðir hins látna.
Sjá nánar: Leiddir fyrir dómara í kvöld og yfirheyrði á miðvikudag
Trond Einar segir að Gísli hafi verið afar vel liðinn í bænum og áberandi í bæjarlífinu og þá sérstaklega á menningarsviðinu.
„Gísli hafði mikilvægu hlutverki að gegna í bænum. Hann var mikið í menningarsenunni og vann með ungu fólki í tónlist og var bara afar indæl manneskja.“

Gamvik er á meðal nyrstu byggðarlaga í heimi. Um 900 manns búa í sjávarþorpinu Mehamn en 1150 í Gamvik. Trond Einar segir að, gróflega áætlað, búi um 30-40 Íslendingar á svæðinu og mætti segja á hjara veraldar.
Býður Íslendinga velkomna
„Þetta fólk er okkur afar mikilvægt,“ segir Gamvik um Íslendingana í Mehamn. Íslendingarnir séu harðduglegir og kunni til verka.„Íslenska fólkið er alltaf velkomið til Gamvikur.“
Aðspurður hvort Íslendingarnir leiti þangað aðeins til að vinna svarar Trond Einar því til að Íslendingarnir hafi fasta búsetu í Gamvik.
„Þau eignast börn hér og fjárfesta í húsnæði. Þau búa hérna. Þau koma ekki aðeins hingað til að vinna heldur líka til að taka þátt í samfélaginu okkar og lifa lífinu,“ segir Trond Einar sem ítrekar mikilvægi íslenskra íbúa fyrir samfélagið í Gamvik. Hann kunni vel að meta þá.