Fjörutíu voru handteknir á Srí Lanka í nótt eftir að neyðarlög tóku þar gildi og lögregla reynir að hafa hendur í hári þeirra sem skipulögðu sprengjuárásirnar í landinu um páskana.
Lögregla segist hafa handtekið ökumann sendibíls sem á að hafa ekið árásarmönnunum á staði sína auk þess sem eigandi húss þar sem nokkrir þeirra bjuggu er einnig í haldi.
Með setningu neyðarlaga gaf forseti landsins lögreglu rýmri heimildir til að handtaka fólk í tengslum við rannsóknina.
Slíkar heimildir voru algengar á dögum borgarastríðsins í landinu en hafa ekki verið notaðar frá árinu 2009 þegar friður komst á.
Tala látinna eftir árásirnar stendur nú í 310 og þjóðarsorg er í landinu í dag auk þess sem fyrstu útfarirnar fara nú fram.
Fjörutíu handteknir á Srí Lanka

Tengdar fréttir

Gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi þrátt fyrir viðvaranir að til stæði að ráðast á kirkjur
Fyrr í þessum mánuði fengu öryggis- og lögregluyfirvöld í Sri Lanka upplýsingar um það að öfgasamtökin, sem talin eru hafa staðið að baki árásunum mannskæðu þar í landi í gær, væru að undirbúa árásir á kirkjur.

Ríkasti maður Danmerkur missir þrjú barna sinna á Srí Lanka
Þrjú af fjórum börnum danska milljarðamæringsins Anders Holch Povlsen létust í sprengjuárásunum á Srí Lanka í gær.

Segja öfgasamtök með alþjóðlega tengingu bera ábyrgð á hryðjuverkunum
Að minnsta kosti 290 létust í þessum árásum á kirkjur og hótel og eru fimm hundruð særðir.