Fótbolti

Rekinn eftir tap fyrir liðsfélögum Alfreðs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Markus Weinzierl þarf nú að fara í atvinnuleit
Markus Weinzierl þarf nú að fara í atvinnuleit vísir/getty
Félagar Alfreðs Finnbogasonar í Augsburg sáu til þess að Markus Weinzierl var látinn taka pokann sinn hjá Stuttgart.

Augsburg vann 6-0 stórsigur á Stuttgart í þýsku Bundesligunni í dag, sem er stærsti sigur Augsburg í efstu deild.

Tapið var Stuttgart dýrt, en bæði lið eru í fallbaráttu í deildinni. Það var einnig dropinn sem fyllti mælirinn hjá stjórnarmönnum Stuttgart og þjálfarinn Markus Weinzierl var rekinn frá félaginu í kjölfarið.

Weinzierl tók við Stuttgart í október og tapaði 15 af 23 leikjum. Stuttgart hefur ekki unnið leik í Bundesligunni síðan í mars og er sex stigum frá öruggu sæti í deildinni.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en árangur félagsins hefur forgang á allt annað,“ sagði í tilkynningu frá Stuttgart.

Unglingaliðsþjálfari Stuttgart, Nico Willig, mun stýra liðinu út leiktíðina til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×