Handbolti

Patti: Haukur er magnaður gæi

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Haukur Þorsteinsson
Haukur Þorsteinsson vísir/bára
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss var hæstánægður með sigur sinna manna gegn Val í kvöld. Leikurinn fór í framlengingu en heimamenn kláruðu leikinn að lokum með 2 mörkum, 36-34.

„Mjög sáttur með sigurinn. Þetta var frábær handbolti og örugglega meiriháttar að horfa á leikinn. Tvö frábær handboltalið og flottur varnarleikur hjá okkur í framlengingunni sem skilaði þessu.”

Hann var gífurlega ánægður með framlag Hauks Þrastarsonar en Haukur tók yfir leikinn í seinni hálfleik og kom heimamönnum aftur inn í leikinn.

„Hann er magnaður gæi og það er ótrúlegt hvað hann er ungur en hann getur ennþá náð svo langt í þessari íþrótt. Hann hefur bætt sig mikið síðan ég byrjaði að þjálfa hann en þá var hann 15 ára.”

Hann tók bara yfir leikinn fyrir okkur og við fórum líka í 7 á 6 í sókninni sem gerði mikið fyrir okkur. Varnarleikurinn varð betri undir lokin einnig.”

Patti hefur einhverjar áhyggjur af sínu liði eftir langan og erfiðan leik.

„Já auðvitað, þeir voru líka orðnir þreyttir alveg eins og við. Robbi var orðinn þreyttur en nú er það bara endurheimt og við þurfum að gera okkur klára í hörkuleik en við vælum ekkert yfir þessu.”

Varðandi þróun einvígisins sagði Patti að hann hefur enga trú á öðru en að þetta verði bara eins og í kvöld. Jafnt fram á seinustu mínútur og sekúndur í öllum leikjunum.

„Jú ég held það. Gulli og Snorri eru frábærir þjálfarar og koma alltaf með verðug verkefni fyrir mann. Við þurfum að halda áfram og leikmenn beggja liða eru mjög góðir. Það er bara 1-0 en ég ætla að undirbúa mig vel fyrir næsta leik á föstudaginn,” sagði Patti að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×