Rannsakendur málsins hafa ekki tjáð sig um hvort frásagnir fólksins standist, en almennt eru flugvélar búnar eldingavörum, hvers hlutverk er að varna því að eldingar geti valdið þeim skaða.
Flugmálayfirvöld Rússlands hafa þá ekki heldur tjáð sig um hvort eldingu hafi raunverulega lostið niður í vélina, heldur einungis gefið út að vélin hafi þurft að snúa við stuttu eftir flugtak vegna „tæknilegra ástæðna.“ Eldur kom upp í vélinni eftir að hún brotlenti.
Denis Yevdokimov, flugmaður vélarinnar, sagði í samtali við rússneska fjölmiðla að eldingin hafi truflað samskipti vélarinnar við flugturninn í Moskvu og hann hafi neyðst til þess að taka alfarið við stjórn vélarinnar.
Tvö börn og starfsmaður áhafnar vélarinnar voru meðal þeirra sem létust eftir að vélin brotlenti og kviknaði í henni. Alls létust 41 af 78 innanborðs.
Myndband af brotlendingu vélarinnar má sjá hér að neðan.