„Heilsan er fín. Annars hefði ég aldrei spilað. Ég hef verið í skoðunum og treysti læknum og sjúkraþjálfurum fyrir því. Það var aldrei nein áhætta tekin með mig í gær,“ segir Heimir Óli en hann hvíldi alveg á milli leikja og síðan var skoðað í upphitun í gær hvort hann væri í standi til þess að spila.
„Það hefur svo verið einhver umræða um að ég hafi fengið heilahristing. Hún kemur frá einhverjum allt öðrum en okkur. Það eru bara Eyjamenn sem komu með þá umræðu. Við sögðum það aldrei.“
Heimir Óli segist þess utan hafa heyrt umræðu um að Haukarnir hafi verið að beita sér fyrir því að Kári Kristján yrði dæmdur í bann en hann fékk þriggja leikja bann fyrir að setja olnbogann í höfuð Heimis Óla.
„Þeir sem halda því fram eru á algjörum villigötum. Það eru einhverjir menn í aganefnd sem við þekkjum ekki neitt og höfum engin afskipti af.“

„Ég stífnaði allur upp og var mjög aumur eftir þetta. Það er samt ekkert sem bendir til heilahristings. Ég hef ekki verið með nein einkenni og mér leið vel þegar ég hitaði upp fyrir leikinn í gær og var vel fylgst með mér,“ segir Haukamaðurinn en hann fékk högg snemma leiks í gær og fór þá á bekkinn í nokkrar mínútur.
„Ég fékk smá högg frá Kristjáni Erni en það var algert óviljaverk svo það komi skýrt fram. Það fór í augað á mér og var ekkert þungt. Ég varð þá að hvíla í þrjár sóknir samkvæmt reglunum. Mér líður vel í dag en verð áfram í meðferð út af stífleikanum aftan í hálsinum.“
Það voru ekki sömu læti í leiknum í gær eins og í leiknum í Eyjum og línumaðurinn bíður spenntur eftir næsta leik í Vestmannaeyjum.
„Ég er fullur eftirvæntingar að mæta í Eyjuna fögru. Það verður hörkuleikur og skemmtilegur gegn flottu liði Eyjamanna.“