Handbolti

Adam Haukur ekki í bann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Adam Haukur Baumruk flýgur með Haukunum í dag.
Adam Haukur Baumruk flýgur með Haukunum í dag. vísir/bára
Adam Haukur Baumruk, stórskytta Hauka í Olís-deild karla og einn besti varnarmaður liðsins, slapp við leikbann þegar að aganefnd HSÍ kom saman í gær á Verkalýðsdaginn.

Adam fékk rautt spjald í seinni hálfleik í fyrsta leik Hauka og ÍBV í undanúrslitarimmu liðanna á Ásvöllum á þriðjudagskvöldið þegar að hann sló á eftir Hákoni Daða Styrmissyni eftir að Eyjamenn höfðu tekið hraða miðju.

„Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota,“ segir í úrskurði aganefndar.

Þetta eru vægast sagt góðar fréttir fyrir Haukana því Adam Haukur fór á kostum í leiknum sem að heimamenn unnu, 35-31. Hann skoraði tíu mörk í fimmtán skotum, gaf eina stoðsendingu og var með sex löglegar stöðvanir í vörninni.

Liðin mætast öðru sinni í Vestmannaeyjum í kvöld en bein útsending hefst á Stöð 2 Sport 2 HD klukkan 18.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×