Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem situr í gæsluvarðhaldi í Noregi grunaður um að hafa skotið bróður sinn til bana aðfaranótt laugardags, neitaði sök í yfirheyrslu hjá lögreglu í dag. Hann segir að um slys hafi verið að ræða og að hann hafi aldrei ætlað að meiða bróður sinn.
Frá þessu er greint á vef RÚV og vísað í samtal fréttastofu við verjanda Gunnars, Vidar Zahl Arntzen. Hann segir Gunnar hafa verið yfirheyrðan í fyrsta sinn í dag og stóð yfirheyrslan yfir frá klukkan 10 til klukkan 16:30.
Hefur RÚV eftir Arntzen að Gunnar sé niðurbrotinn vegna málsins og mjög leiður. Hann hafi þó getað varpað ljósi á það sem gerðist í yfirheyrslunni. Áður höfðu norskir fjölmiðlar greint frá því að Gunnar hefði játað morðið við handtökuna auk þess sem hann virtist játa verknaðinn í færslu sem hann setti á Facebook á laugardagsmorgun.
Gunnar var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á mánudaginn. Annar Íslendingur, vinur bræðranna, sem grunaður er um aðild að málinu var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Hann hefur neitað sök.
Fréttastofa hefur ekki náð tali af verjanda Gunnars í dag eða síðustu daga þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í svari lögreglunnar í Finnmörk við fyrirspurn Vísis um yfirheyrslu lögreglu yfir Gunnari sagði að fjölmiðlar myndu ekki fá neinar upplýsingar um framvindu mála í dag þar sem það væri frídagur hjá upplýsingafulltrúum lögreglunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Gunnar neitaði sök í yfirheyrslu hjá lögreglu

Tengdar fréttir

Játaði morðið við handtökuna
Gunnar Jóhann Gunnarsson virðist hafa játað að hafa myrt Gísla Þór Þórarinsson er hann var handtekinn á sunnudag í Noregi. Lögregla hefur enn ekki yfirheyrt hann vegna málsins.

Segist hafa verið með Gunnari í fimm tíma eftir morðið
Hinn Íslendingurinn sem grunaður er um aðild að morðinu á Gísla Þór Þórarinssyni í Mehamn í Noregi um helgina var í gær úrskurðaður í viku gæsluvarðhald.

Safna fyrir flutningi Gísla Þórs til Íslands
Vinir og fjölskylda Gísla Þórs Þórarinssonar, sem lést á laugardagsmorgun í bænum Mehamn í Finnmörk nyrst í Noregi, hafa hrundið af stað söfnun.