Sjúkraflutningamennirnir fylgdu öryggisreglum og biðu með að hlúa að Gísla þar sem lögregla hafði ekki tryggt vettvang. Sömu vinnureglur gilda hjá íslenskum sjúkraflutningamönnum.
Norska ríkisútvarpið, NRK, greindi frá því í morgun að lögregla hefði komið að húsi Gísla Þórs í Mehamn í Noregi meira en 40 mínútum á eftir sjúkraflutningamönnum. Gísli hafði verið skotinn í lærið. Því var unnið eftir öryggisreglum um að lögregla þurfi að tryggja vettvang áður en sjúkraflutningamenn geta hafist handa.
Lögregluþjónar komu frá bænum Kjøllefjord sem er í um hálftíma fjarlægð frá heimili Gísla í Mehamn í Finnmörk. Samtals liðu 53 mínútur frá útkalli þar til lögregla var komin á vettvang.

Erfitt að geta ekki hjálpað fólki í lífshættu
Yfirmaður samtaka sjúkraflutningamanna í Noregi segir það vera mjög erfitt fyrir sjúkraflutningamenn að bíða eftir því að koma fólki í lífshættu til bjargar.Sama fyrirkomulag gildir á Íslandi. Fyrsta atriðið sem sjúkraflutningamenn eiga að kanna er hvort vettvangur hafi verið tryggður.
Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir að meðal sjúkraflutningamanna hafi verið rætt um atburði sem hafi orðið í nágrannalöndum þar sem skotvopn hafa verið notuð á vettvangi.
„Umræðan um öryggi á vettvangi hefur snúist að því hvernig við erum í stakk búin að takast á við þannig áskoranir,“ segir Magnús Smári.

Bið sjúkraflutningamanna kom fjölskyldu á óvart
Fjölskylda Gísla Þórs á Íslandi fékk fyrst í dag, eftir umfjöllun fjölmiðla í Noregi og á Íslandi, formlegar upplýsingar um málið frá norsku lögreglunni. Það kom fjölskyldunni verulega á óvart að sjúkraflutningamenn hafi beðið svo lengi eftir lögreglu.Jarðarför Gísla Þórs var auglýst í dag. Hún fer fram í Ytri-Njarðvíkurkirkju á föstudaginn klukkan 13. Athöfnin verður einnig sýnd á tjaldi í Stapanum þar sem erfidrykkja fer fram.