Freyr Árnason hefur sett saman nýjasta þáttinn af Fimleikafélaginu en þættirnir eru sýndir hér inn á Vísi.
Í þáttunum gefst FH-ingum og öðrum áhugamönnum um íslenskan fótbolta tækifæri til að skyggnast á bak við tjöldin hjá risanum í Hafnarfirði en myndavélin kemst inn á staði þar sem menn eru vanalega ekki að mynda.
Að þessu sinni er komið að því að beina sjónum sínum að meistaraflokki kvenna hjá FH. Kvennalið FH spilar í Inkasso deildinni og gerði 1-1 jafntefli við ÍA í fyrstu umferð á dögunum.
Fimleikafélagið fékk að fylgjast aðeins með lífinu hjá þeim Selmu Dögg Björgvinsdóttur, Ernu Guðrúnu Magnúsdóttur og Nótt Jónsdóttur þegar þær eru ekki á æfingum í Kaplakrika.
Þátturinn byrjar ekki í Hafnarfirði heldur á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar fáum við að sjá lögreglukonuna í FH-liðinu í vinnunni.
„Ég er búin að vera í nokkra mánuði, frekar stutt,“ segir Selma Dögg Björgvinsdóttir en hún er að læra lögreglufræði í Háskólanum á Akureyri og er í 70 prósent vinnu með.
„Ég var ekkert búin að mynda mér skoðun á löggunni enda hefur hún ekki þurft að hafa afskipti af mér,“ segir Selma Dögg.
Hún sýndi aðstöðuna á lögreglustöðinni og meðal annars hvar lögreglufólkið ætlar að horfa á Pepsi Max deildina í sumar.
Fimleikafélagið hitti síðan á þær Ernu og Nótt í Háskólanum í Reykjavík þar sem þær stunda báðar nám, Erna í viðskiptafræði en Nótt í lögfræði.
„Ég held að við séum að fara beint upp,“ segir fyrirliðinn Erna Guðrún Magnúsdóttir. Hún er ánægð að fá margar gamlar FH-stelpur aftur til baka inn í liðið. Ein af þeim er Nótt.
Sjötta þátt annarrar seríu Fimleikafélagsins má sjá í heild sinni fyrir neðan.