Handbolti

Fyrirliði Valsmanna leggur skóna á hilluna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Orri Freyr Gíslason er einn mesti karakterinn í Olís-deildinni.
Orri Freyr Gíslason er einn mesti karakterinn í Olís-deildinni. vísir/bára
Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals í Olís-deild karla í handbolta, hefur tekið ákvörðun um að leggja skóna á hilluna og er hættur í handbolta.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vals en Orri er fæddur árið 1988 og fagnar 31 árs afmæli sínu í lok maímánaðar.

Orri Freyr hefur um árabil verið einn allra besti varnarmaður Olís-deildarinnar og mikill leiðtogi í Valsliðinu. Hann leiddi það síðast til sigurs á Íslandsmótinu fyrir tveimur árum.

Línu- og varnarmaður öflugi hefur ekki leikið fyrir neitt annað félag en Val á Íslandi en fór í atvinnumennsku til Viborg fyrir nokkrum árum.

Orri Freyr var valinn íþróttamaður Vals árið 2017 eftir að verða Íslands- og bikarmeistari með liðinu en sama ár komst liðið í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu.

„Við þökkum Orra Frey fyrir sitt framlag til Vals og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni,“ segir í kveðju Valsmanna til fyrirliðans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×