Aganefnd KSÍ kom saman í dag, eins og venja er að hún geri á þriðjudögum, en athygli vekur að hún hefur ekki úrskurðað í máli Björgvins Stefánssonar.
Eins og frægt er orðið lét Björgvin falla óviðeigandi ummæli þegar hann lýsti leik Hauka og Þróttar R. í Inkassodeildinni síðastliðinn fimmtudag.
Mikil umræða hefur skapast um málið en samkvæmt reglubókstaf KSÍ þá gæti hann átt von á fimm leikja banni vegna málsins.
Aganefnd fundar vikulega á þriðjudögum og hefur birt reglubundinn úrskurð á heimasíðu KSÍ. Þar kemur meðal annars fram að Kristinn Freyr Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen eru á leið í eins leiks bann vegna rauðra spjalda sem þeir fengu í síðustu umferð.
Þar er hins vegar ekkert að finna um Björgvin. Því má gefa sér það að mál hans sé enn í meðferð hjá aganefndinni.
