Þá mun Ancala Partners, erlendur samstarfsaðili Jarðvarma í framhaldinu kaupa 50% hlut í HS Orku á móti Jarðvarma, að því er fram kemur í tilkynningu frá síðarnefnda félaginu.
Í tilkynningu Innergex til kanadísku kauphallarinnar í morgun segir að kaupverðið sé 299,9 milljónir dala, jafnvirði um 37,3 milljarða króna. Markaðsvirði HS Orku, miðað við kaupverð Jarðvarma, er því um 69 milljarðar króna. Kaupin voru samþykkt á hluthafafundi Jarðvarma þann 9. apríl síðastliðinn.
Fagfjárfestasjóðurinn ORK seldi Jarðvarma 12,7 prósent hlut sinn í HS orku í upphafi apríl síðastliðins fyrir um 8,5 milljarða króna. Fyrir kaupin á hlut ORK í apríl átti Jarðvarmi rúmlega þriðjungshlut í HS Orku. Samanlagt kaupverð Jarðvarma á hlutum ORK og og Inngex nema því um 47 milljörðum króna.
Ráðgjafar Innergex í söluferlinu voru kanadíski bankinn Bank of Montreal og íslenska ráðgjafarfyrirtækið Stöplar Advisory. Ráðgjafar Jarðvarma í þessum viðskiptum voru Arctica Finance, SKR lögfræðiþjónusta og Advel lögmenn. Ancala Partners er breskt sjóðastýringarfyrirtæki sem sérhæfir sig í evrópskum innviðafjárfestingum.
Eins og fram kemur í tilkynningu Innergex hófst söluferlið á eignarhlut félagsins í október í fyrra. HS Orka er þriðji stærsti raforkuframleiðandi landsins og jafnframt eina orkufyrirtækið á Íslandi sem er í eigu einkafjárfesta. Rekstrartekjur félagsins árið 2018 voru 8,9 milljarðar króna.
Haft er eftir Davíð Runólfssyni, stjórnarformanni Jarðvarma og Blávarma, í tilkynningu fyrrnefnda félagsins að með þessum viðskiptum skapist stöðugleiki um eignarhald á HS Orku til framtíðar.
„Sérfræðiþekking Ancala á sviði endurnýjanlegrar orku og sameiginleg sýn okkar á þau tækifæri sem eru til staðar fyrir HS Orku til lengri tíma gerir Ancala að ákjósanlegum meðeiganda. Fram undan eru spennandi tækifæri við frekari uppbyggingu HS Orku. Þá er Bláa Lónið kjölfesta í íslenskri ferðaþjónustu sem hefur byggt upp sterkt alþjóðlegt vörumerki. Uppbygging síðustu ára skapar tækifæri til enn frekari vaxtar sem eigendur Blávarma hyggjast taka fullan þátt í,“ segir Davíð.
Eigendur Jarðvarma slhf eru:
Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi - lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Festa - Lífeyrissjóður, Almenni Lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stapi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka íslands, Lífsverk lífeyrissjóður, Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna og Lífeyrissjóður bænda
Fréttin var uppfærð eftir að tilkynning barst frá Jarðvarma.