Upphaf Myntar var nokkuð skondið. „Það var nú eiginlega þannig að ég var að taka til í geymslunni minni. Hún var svo stútfull af fötum sem ég hef sankað að mér síðustu 20 ár. Mér fannst algjör synd að fara að fleygja þessum flottu fötum sem flest voru í mjög góðu standi. Ég notaði fötin úr geymslunni til að byrja með í búðina en þegar á leið fékk ég líka föt frá mömmu minni, dóttur, frænku og kærasta. Sum eru notuð og önnur jafnvel glæný,“ segir Ágústa Hera.
Hún segir fötin úr ólíkustu áttum og að í búðinni sé að finna föt á unga sem aldna, konur jafnt og karla.

Föðurland er lína af bolum, nærbuxum og leggings með íslenska náttúru og landakort áprentuð. Hún hefur reynst einstaklega vinsæl meðal ferðamanna sem og í gjafir til fólks sem býr erlendis.
En hvaðan kemur nafnið Mynt?
„Hér var myntsafnari í húsnæðinu í mörg ár svo mér fannst það liggja vel við. Það er líka æðislegur garður þarna við og það vill svo til að þar vex ótrúlega góð mynta. Svo vill líka svo skemmtilega til að þegar ég kom hingað fyrst var ég með vini mínum og við erum gjörsamlega forfallnir aðdáendur piparmyntusúkkulaðisins Pipp,“ segir Ágústa Hera hlæjandi að lokum.