Carl Baudenbacher, sem er svissneskur ríkisborgari, var dómari við EFTA-dómstólinn í 22 ár sem fulltrúi Liechtenstein en starfar nú sjálfstætt við lögfræðiráðgjöf með aðsetur í Lundúnum. Baudenbacher dæmdi í mörgum stefnumarkandi málum sem snerta Íslendinga með beinum hætti. Þar má nefna mál Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur og Icesave-málið. Baudenbacher var á Íslandi nýverið vegna lögfræðilegrar álitsgerðar sem hann vann um þriðja orkupakkann að beiðni utanríkisráðherra. Annars vegar var hann beðinn að svara því hvaða afleiðingar það hefði ef íslenska ríkið myndi hafna því að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 með afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara vegna þriðja orkupakkans. Hins vegar var Baudenbacher beðinn að meta möguleika Íslands á að semja um undanþágu frá reglugerð um Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) en valdheimildir þessarar stofnunar eru eitt heitasta þrætuepli þriðja orkupakkans. Ég settist niður með Baudenbacher á veitingahúsinu við Sand Hótel á Laugavegi til að ræða ýmis önnur mál sem hann hefur mikla þekkingu á. Þar má nefna þróun EES-samstarfsins í víðu samhengi, Brexit, samband Sviss við Evrópusambandið og Icesave-málið. Neðst er hljóðupptaka af viðtalinu fyrir þá sem kjósa frekar að hlusta. EES-samningurinn fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli en með samningnum skuldbatt íslenska ríkið sig með þjóðréttarsamningi til að taka upp heilt regluverk í einni svipan þar sem verulegur hluti af löggjöf Evrópusambandsins var innnleiddur í íslenskan rétt. Helsti tilgangur EES-samningsins er að stækka innri markað Evrópusambandsins til yfirráðasvæðis EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein í því markmiði að skapa eitt einsleitt efnahagssvæði.Ég vil byrja á þróun EES-samningsins því á Íslandi hefur verið mikil umræða meðal fræðimanna um valdframsal og 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar sem hefur verið óbreytt frá 1920. Danir settu inn sérstakt ákvæði um valdframsal til alþjóðastofnana í dönsku stjórnarskrána árið 1953 og Norðmenn settu slíkt ákvæði í norsku stjórnarskrána árið 1962 en Íslendingar hafa aldrei breytt íslensku stjórnarskránni til að heimila slíkt valdframsal. Íslenskir fræðimenn hafa því sett fram efasemdir um hvort þróun EES-samstarfsins rúmist innan íslensku stjórnarskrárinnar vegna skorts á slíku ákvæði. Sú þróun hefur orðið á Evrópuréttinum að miðlægum stofnunum Evrópusambandsins hefur í auknum mæli verið falið vald til að taka bindandi ákvarðanir fyrir aðildarríki sambandsins. Hér má nefna valdheimildir European Banking Authority vegna tilskipana um sameiginlegt fjármálaeftirlit og þá má einnig nefna hér valdheimildir ACER vegna þriðja orkupakkans. Þetta hefur verið leyst gagnvart EFTA/EES-ríkjunum með því að fela Eftirlitsstofnun EFTA valdheimildir þessara miðlægu stofnana ESB. Þegar samið var um EES-samninginn árið 1989 þá var skýr fyrirvari um að það væri ekki ætlunin að setja upp nýjar stofnanir sem myndu taka við valdheimildum frá EFTA-ríkjunum og stofnunum Evrópusambandsins en þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst. Finnst þér þessi þróun rýra eða draga úr fullveldi EFTA-ríkjanna? „Ég þarf að fara varlega við túlkun á íslenskum lögum því ég þekki þau ekki nægilega vel. En ég hef fylgst með íslenskum fræðimönnum takast á undanfarin tuttugu ár og ég hef alltaf haft það á tilfinningunni, með nokkrum undantekningum þó, að þeir séu of hallir undir pósitívisma og þeir einblína of mikið á textaskýringar og hinn ritaða lagabókstaf. Maður getur einnig fært rök fyrir því að að íslenska stjórnarskráin hafi þróast utan rituðum texta hennar því Ísland hefur fullgilt EES-samninginn og það var ekki aðeins lagaumgjörð fjármálamarkaðarins sem leiddi til þeirra vandamála sem þú nefnir og er núna til umfjöllunar vegna þriðja orkupakkans. Því þetta var einnig í samkeppnislöggjöfinni. Við höfum ákveðið valdframsal þar. Stjórnarskrár ríkja hafa þróast utan ritaðs texta og það er viðurkennt í nær öllum ríkjum að stjórnarskrár veiti þau réttindi sem þar koma fram en einnig óskrifuð réttindi sem eru hinum ritaða texta til fyllingar sem hafa þróast af dómstólum eða annarri lagaframkvæmd,“ segir Baudenbacher. Þegar EES-samningurinn tók gildi átti sér stað nokkuð víðtækt valdframsal á sviði samkeppnismála. Það birtist í því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fékk valdheimildir til að taka ákvarðanir sem snúa að einstaklingum og lögaðilum vegna brota á samkeppnisreglum. Stofnunin getur sektað fyrirtæki og eru þessar sektir aðfararhæfar. Þá verða ákvarðanir ESA ekki bornar undir dómstóla í aðildarríkjunum heldur undir EFTA-dómstólinn til endanlegrar úrlausnar. Í reglugerð nr. 1/2003 um framkvæmd samkeppnisreglna á EES-svæðinu er ákvæði sem skyldar samkeppnisyfirvöld og dómstóla í aðildarríkjunum til að beita tilteknum ákvæðum Rómarsáttmálans þegar þau beita innlendum samkeppnislögum gagnvart samningum og venjum sem geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna. Þessi reglugerð var umdeild og þá ekki síst ákvæði hennar sem er bindandi fyrir dómstóla EFTA/EES-ríkjanna þriggja. Er þetta kannski stærsta eðlisbreytingin sem við höfum séð á EES-samningnum frá 1994? „Fræðilega séð, já. Ég var alltaf nokkuð gagnrýninn á að þetta væri bindandi fyrir dómstóla aðildarríkjanna. Ég var virkur í umræðunni sem leiddi til þessarar reglugerðar, nr. 1/2003, því ég var með eina af aðal ráðstefnunum við Háskólann í St. Gallen í Sviss og var forseti þessarar ráðstefnu í aldarfjórðung. Einn af helstu gerendunum í þessu máli, Mario Monti sem var í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, kom alltaf á þessa ráðstefnu og við ræddum þetta ítarlega. Ég var alltaf gagnrýninn á þetta en þegar maður metur þetta frá praktísku sjónarhorni þá held ég að dómstólar aðildarríkjanna hafi alveg ráðið við þetta.“Í höndum EFTA-ríkjanna sjálfra að tryggja áframhaldandi virkni EESHvernig sérðu EES-samstarfið þróast á næstu árum? Við höfum séð að ESA fær valdheimildir þessara miðlægu stofnana Evrópusambandsins á sviði fjármálaeftirlits og einnig núna með þriðja orkupakkanum. Er þetta þróun sem er komin til að vera og munum við sjá meira af þessu? „Ég átta mig á því að þegar Evrópusambandið tók upp þetta fyrirkomulag að fela miðlægum stofnunum vald til að taka bindandi ákvarðanir þá skapaði það meiriháttar vandamál fyrir EES-samninginn. Þegar EES-samningurinn var saminn þá voru engar stofnanir af þessum toga. Satt að segja þá er ég dálítið hissa á því að EFTA-stoðin með Íslandi, Noregi og Liechtenstein hafi tekist að semja um þessa málamiðlun við Evrópusambandið sem gerir ESA kleift að vinna með þessum miðlægu stofnunum ESB. Þetta er málamiðlun sem EFTA-ríkin ættu að taka fagnandi því við þurfum að taka pólitíska aflsmuni með í reikninginn. Þið megið ekki gleyma að það eru 28, bráðum 27, öflug aðildarríki hinum megin en þrjú lítil ykkar megin. Þið getið ekki afgreitt þetta vandamál með pólitískum yfirlýsingum um að fullveldið sé heilagt og svo framvegis. Ég held að það hafi verið mikill sigur fyrir EFTA-ríkin að ESA hafi fengið þessar valdheimildir. Svo veltur það hvernig tekst til á EFTA-ríkjunum sjálfum. Ef EFTA-ríkin senda öflugt fólk til ESA þá hefur stofnunin þann styrk sem þarf til að standa uppi í hárinu á þessum miðlægu stofnunum Evrópusambandsins. Ef ríkin senda bara venjulega embættismenn þá mun þetta ekki ganga vel. Það er í höndum ríkjanna sjálfra að þetta fyrirkomulag virki vel. Þótt pólitískur styrkur skipti máli þá er það ekki þannig að Evrópusambandið muni bara leggja til einhverjar ákvarðanir án þess að taka rök EFTA-stoðarinnar með í reikninginn. Ef þú hefur sterk rök þá geturðu alltaf komið í veg fyrir tilteknar ákvarðanir. Þegar ég var forseti EFTA-dómstólsins þá höfðum við mjög mikil áhrif á dómaframkvæmd Evrópudómstólsins (innsk. European Court of Justice, ECJ) því í lok dagsins þá er það lögfræðilegur rökstuðningur sem ræður.“Það má færa rök fyrir því að við séum alltaf að uppfæra EES-samninginn því við erum alltaf að innleiða nýjar tilskipanir og reglugerðir frá Evrópusambandinu. En hvernig er andrúmsloftið í Brussel gagnvart aðild EFTA-ríkjanna að Evrópusambandinu? Er vaxandi þrýstingur meðal embættismanna í Brussel að það sé langtímamarkmið að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein fari þangað inn?„Ég held að eftir 25 ár þá sé þessi hugmynd að EES-aðild sé aðeins biðstofa fyrir framtíðaraðild að Evrópusambandinu ekki lengur gild. EES-samningurinn hefur sannað gildi sitt sem sjálfstæð aðild að innri markaðnum. Það er enginn í Brussel að þrýsta á að EFTA-ríkin gangi í sambandið. Evrópusambandið sýnir því hins vegar aðeins áhuga að viðhalda þessu flókna samstarfi, sem er tímafrekt og dýrt, svo lengi sem EFTA-stoðin er uppbyggð á trúverðugan hátt. Það gerir þetta brothætt. Með aðeins þrjú ríki þá höfum við litlar stofnanir. ESA er lítil stofnun, EFTA-dómstóllinn er lítill. Ég segi ekki að þessar stofnanir séu veikburða, alls ekki. Þær eru hins vegar viðkvæmar. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður að EFTA-ríkin verða að senda sitt besta fólk til ESA og til EFTA-dómstólsins. Þegar ég hætti sem dómari við EFTA-dómstólinn hitti ég alla toppana í Brussel og þeir sögðu við mig að svo lengi sem þeir sæju EFTA-dómstólinn leysa vel úr sínum verkefnum á framúrskarandi hátt þá væri þetta þess virði.“Mig langar að ræða aðeins um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit. Hverjar heldur þú að verði lyktir þess máls? „Ég hef setið marga fundi um Brexit og veitt báðum deildum breska þingsins ráðgjöf og breska utanríkisráðuneytinu einnig. Núna eru lyktir þessa máls algjörlega óútreiknanlegar og því er ómögulegt að spá fyrir um þær. Ég vona hins vegar að þeir finni lausn sem er eitthvað í líkingu við EES-samstarfið því ég trúi því að Bretland eigi að viðhalda aðgangi að innri markaði Evrópusambandsins. Með því myndu þeir einnig endurheimta fullveldi á mikilvægum sviðum eins og EFTA-ríkin gera núna. Hins vegar eru þeir sem vilja hart Brexit og fara alveg út. Svo er hópur sem vill vera áfram inni. Ég er hluti af hópi sem er að veita þverpólitískum samtökum ráðgjöf og við ráðleggjum lausn í líkingu við EES. EFTA-stoðin eins og hún er núna myndi styrkjast mikið við þetta og þetta myndi einnig styrkja EFTA-dómstólinn því breskir dómarar hafa frábært orðspor. Vandamál EFTA-dómstólsins hefur oft falist í því að fólk hefur verið tilnefnt til setu í dómnum sem hefur bakgrunn sem embættismenn. Það er vafa undirorpið hvort einstaklingar í slíkri stöðu geta breyst á einni nóttu og slitið á tengslin við höfuðborgina. Bretar eru ekki þannig. Bretar fundu upp hugmyndina um sjálfstæði dómsvaldsins. Persónulega væri ég mjög hlynntur lausn af þessu tagi því ég dáist að rökræðustíl Breta og þeirri staðreynd að þeir eru ekki sérstaklega hrifnæmir og þeir eru ófeimnir við að efast um tillögur annarra.“Heldurðu að 50. gr. Lissabon-sáttmálans sé orðuð með nægilega skýrum hætti til að ráða við Brexit og heldurðu að úrsögn Bretlands muni fela í sér einhvers konar fordæmi við túlkun greininni ef svo ólíklega vill til að eitthvað annað ríki ákveði að segja sig úr Evrópusambandinu? „Þessi 50. gr. hefur ekki reynst fullkomin en hún er þarna og henni verður ekki breytt. Á þessari stundu sé ég ekki að eitthvað annað ríki fylgi á hæla Bretlands út úr Evrópusambandinu en ef Bretar verða hluti af EES-samstarfinu þá gæti það haft talsverð áhrif á mitt heimaland, Sviss, því í skoðanakönnunum í Sviss eru um 44 prósent hlynnt aðild Sviss að EES-samningnum. Vandamál Sviss er að í utanríkisráðuneytinu er hópur manna sem einblínir á aðild að Evrópusambandinu og þeir grafa undan öllum tilraunum til að verða hluti af EES. Ég er á meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við aðild Sviss að EES. Ef við hefðum EFTA-stoð sem samanstæði af Íslandi, Liectenstein, Noregi, Bretlandi og Sviss þá væri það nokkuð magnað.“Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sæmdi Carl Baudenbacher stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu í móttöku á Bessastöðum í júní 2018.Staða Sviss gagnvart ESB er sjálfskaparvíti Sviss stendur utan bæði Evrópusambandsins og EES-samningsins en er í staðinn með tvíhliða samnina við Evrópusambandið. Sviss er sambandsríki 26 kantóna sem hver fyrir sig er nokkuð sjálfstæð. Sérhver kantóna er með eigið þing og þar er kosið um allar meiri háttar ákvarðanir í íbúakosningum. Ríkisstjórn sambandsríkisins hefur fundarstað í Bern en í ríkisstjórninni sitja sjö fulltrúar, fyrir mismunandi kantónur, sem mynda æðstu stjórn landsins.Sviss er aðili að EFTA en felldi aðild að EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Sviss er í dag er með 120 tvíhliða samninga við Evrópusambandið en hefur verið í viðræðum við Evrópusambandið um hvernig framtíðarsambandi ríkisins við ESB skuli háttað. Meðal annars er deilt um innleiðingu ESB-löggjafar í Sviss og túlkun hennar. Hvernig heldur þú að þetta þróist? „Það er mikilvægt að gera greinarmun á tvennu í þessu sambandi. Í fyrsta lagi höfum við þessa tvíhliða samninga sem voru gerðir löngu fyrir 1992. Sá mikilvægasti er fríverslunarsamningur og það eru margir eldri samningar. Af þessum hundrað og tuttugu samningum þá eru um það bil tuttugu sem eru mikilvægir. Hinir samningarnir eru um alls konar landbúnaðarvörur, osta og slíkt. Við höfum þessa samninga sem skuldbinda Sviss til að gangast undir ESB-löggjöf, ekki ósvipað og gerist í EES. Síðan höfum við svokallaða sjálfstæða innleiðingu ESB-gerða. Þetta gerir Sviss eitt og sér og þetta fyrirkomulag veitir ekki aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Þetta er mjög ófullkomin lausn. Hvað varðar tvíhliða samningana sjálfa þá byggja þeir á grunni þar sem engum stofnunum er til að dreifa. Það er engin eftirlitsstofnun og enginn dómstóll. Það er nákvæmlega þarna sem vandamálin hófust því árið 2008 sagði Evrópusambandið við Sviss: Þið verðið að hafa eftirlitsstofnun og þið verðið að vera með dómstól. Við teljum að þið munið ekki ganga í sambandið svo þetta fyrirkomulag gengur ekki til lengdar.“Vikuritið The Economist segir að Evrópusambandið sé að reyna að þvinga Sviss í nýjan fríverslunarsamning og þessu hefur verið lýst sem gíslatöku, hvernig ESB hefur nálgast þessar viðræður. Hefur Evrópusambandið sýnt Sviss ósanngirni í þessum viðræðum? „Nei, ESB hefur ekki sýnt ósanngirni. Það hefur bara notfært sér veikleika svissneskra stjórnvalda og fáfræði bæði ríkisstjórnarinnar og stjórnkerfisins. Það voru stjórnvöld í svissneska sambandsríkinu sem komu sér í þessa erfiðu stöðu með fáfræði og hroka. Þetta er sjálfskaparvíti. Evrópusambandið bauð Sviss árið 2012 að nota stofnanir EFTA-stoðarinnar. Það hefði þýtt að ágreiningur vegna tvíhliða samninganna hefði farið undir ESA og undir lögsögu EFTA-dómstólsins. Evrópusambandið bauð þeim meira að segja að semja sérstaklega um að hafa fulltrúa hjá ESA og dómara við EFTA-dómstólinn fyrir þessa tvíhliða samninga en svissnesk stjórnvöld höfnuðu þessu og völdu fremur að fara undir lögsögu Evrópudómstólsins. Þannig hófust þessi vandræði og núna sitja Svisslendingar fastir.“Carl Baudenbacher, sem hér er annar frá vinstri, var dómari við EFTA-dómstólinn í 22 ár. Baudenbacher á vinstri hönd er Páll Hreinsson, íslenski dómarinn við EFTA-dómstólinn.Efast um að Svisslendingar samþykki lögsögu EvrópudómstólsinsHvernig mun þetta leysast og hvernig verður sambandi Sviss við Evrópusambandið hagað?„Ég get ekki ímyndað mér að Svisslendingar muni segja já í þjóðaratkvæðagreiðslu um lögsögu Evrópudómstólsins. Það sem hefur gerst í millitíðinni er að það varð kristaltært að þetta módel um lögsögu Evrópudómstólsins myndi ekki njóta stuðnings svissnesku þjóðarinnar. Evrópusambandið kom þá með aðra lausn, sambandið lék eiginlega á Svisslendinga með því að bjóða þeim „úkraínsku leiðina“. Utanríkisráðherrann þurfti að segja af sér vegna málsins. Þessi leið veitir Sviss að forminu til rétt til að hafa sérstakan gerðardóm en gerðardómurinn verður að óska eftir áliti Evrópudómstólsins í öllum mikilvægum málum. Færð hafa verið rök fyrir því að þetta sé undanfari aðildar að Evrópusambandinu. Ég skrifaði bók um þetta undir ögrandi titlinum Das Schweizer EU-Komplott (Svissneska ESB-samsærið). Ég bjó til hugtakið vendimörk eða PNR um þetta en það stendur fyrir point of no return. Það sem stjórnvöld sambandsríkisins Sviss eru að gera er að búa til eins mörg vendimörk og þau geta. Þetta er hugtak úr flugmáli en þegar flugvél er komin ákveðið langt frá brottfararstað þá getur hún ekki snúið til baka og þá hefur hún náð vendimörkum. Þetta er það sem stjórnvöld í Bern eru að gera. Þetta á ekki eftir að enda vel og þeim á eftir að mistakast í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er á meðal þeirra sem myndu leggjast gegn þessu ef þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.“Þú sagðir þegar þú komst fyrir utanríkismálanefnd Alþingis að marga svissneska embættismenn dreymdi um aðild Sviss að Evrópusambandinu. En aðild verður aldrei samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvað? „Ég held að stuðningur við aðild sé um 15 prósent í skoðanakönnunum. Þetta eru í raun bara landráðamenn úr röðum embættismanna sem reka þessa stefnu og þeir eru að framfylgja eigin stefnu í Evrópumálum. Ríkisstjórn sambandsríkisins er ekki sterk í Sviss (vegna sjálfstæði kantónanna innsk. blm). Sviss er eina þjóðríkið sem fylgir directoire-stjórnskipulaginu frá tímum Robespierre. Þegar ljóst var að einræðisfyrirkomulagið hafði gengið sér til húðar þá tóku menn upp sérstök ráð skipað fimm fulltrúum með það fyrir augum að ráðsmenn myndu hafa taumhald með hver öðrum til að tryggja að enginn þeirra yrði of valdamikill. Svissneska sambandsríkið hefur sjö. Á okkar tímum, þar sem alþjóðavæðingin skapar fleiri vandamál en fyrir þremur áratugum eða svo, þá er þetta veikburða ríkisstjórn.“Icesave-málið er minnisstæðastMig langar að enda þetta spjall okkar á dómi EFTA-dómstólsins frá 28. janúar 2013. Dómnum í Icesave-málinu sem er líklega frægasta dómsmál sem rekið hefur verið fyrir EFTA-dómstólnum. Evrópusambandið túlkaði tilskipun 94/19 um innistæðutryggingar þannig að í tilskipuninni fælist svokölluð árangursskylda. Ég sagði við á sínum tíma við Jóhannes Karl Sveinsson, einn af lögmönnunum í íslenska lögmannateyminu, að krafa um árangursskyldu væri ekkert annað en krafa um óbeina ríkisábyrgð, enda var ríkið eitt burðugt til að fjármagna innistæðutryggingasjóðinn, sem kemur ekki fram í texta tilskipunarinnar. Er ekki óhætt að slá því föstu að Evrópusambandið hafi alltaf beitt fremur vafasamri lögskýringu á þessa tilskipun?„Jú, algjörlega, þú hefur rétt fyrir þér. Ég skrifaði um þetta í æviminningum mínum, Judicial Independence. Evrópusambandið hafði kárlega pólitískt markmið í þessu máli því þeir gerðu Íslandi erfitt fyrir að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. José Manuel Barroso, sem þá var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, reyndi einnig að þröngva Íslandi inn í Evrópusambandið af mörgum augljósum ástæðum, vegna auðlinda ykkar, vegna stöðu ykkar í Norður-Atlantshafi. Aðild Íslands hefði verið frábær fyrir Evrópusambandið. Ef Ísland hefði tapað málinu hefði það kannski ekki átt neinn annan valkost í pólitísku tilliti. En þið töpuðuð ekki málinu af því að frá lögfræðilegu sjónarhorni var alveg skýrt að það var engin árangursskylda í tilskipuninni. Sú hugmynd að EFTA-dómstóllinn hafi átt að komast að þeirri niðurstöðu að það væri gat í lagatextanum og fylla það gat í samræmi við óskir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ESA var algjörlega útilokað. Það er ekki hægt að stunda framsæknar lögskýringar til fyllingar á lagatexta á kostnað heillrar þjóðar. Það hefði verið svívirðilegt og það hefði verið versta dæmið um lögfræðilega aðgerðastefnu eða framsækna dómaframkvæmd sem ég hefði orðið vitni að á öllum mínum starfsferli. Svo við slepptum því. Síðari röksemdarfærslan var af hagrænum toga. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef við myndum verðlauna óábyrga hegðun fjármálafyrirtækja með því að segja, það skiptir ekki máli hvað þið gerið því ríkið borgar, þá myndi það ýta undir freistnivanda (e. moral hazard). Það var jafnframt vikið að því í aðfaraorðum tilskipunarinnar að forðast bæri freistnivanda. Við vorum eini dómstóllinn í Evrópu sem reis undir nafni hvað þetta snertir. Það sem Evrópusambandið gerði eftir fjármálakreppuna var að bjarga bönkum með fé skattgreiðenda. Það er algjört hneyksli að í meintu markaðshagkerfi sé þetta lausnin. Konan mín skrifaði doktorsritgerð um freistnivanda og því skildi ég kjarnann í málinu.“Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið birti skýrslu sína 12. apríl 2010 og það er sérstakur kafli um innistæðutryggingakerfið í skýrslunni í 5. bindi hennar. Þar er meðal annars vitnað í doktorsritgerð sem var skrifuð við lagadeild Oslóarháskóla um tilskipun 94/19 eftir norskan lögfræðing, Inge Kaasen, og orðið ríkisábyrgð kemur ekki einu sinni fyrir í texta ritgerðarinnar. Svo við höfðum lögskýringuna árið 2010 en samt héldu stjórnvöld áfram að berjast fyrir ríkisábyrgð sem var ekki til staðar og stjórnmálamenn á Íslandi voru tilbúnir að samþykkja túlkun Evrópusambandsins á tilskipuninni. Meðal annars af þessari ástæðu var þetta gríðarlega mikilvægur dómur hjá EFTA-dómstólnum. „Ég veit. Ég vissi ekki af þessum skjölum. Hvorki þessari doktorsritgerð né þessum skrifum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar en ég veit að margir stjórnmálamenn á Íslandi á þeim tíma keyptu kenninguna um ríkisábyrgð því án hennar hefðu þeir ekki farið í þessar aðildarviðræður. Það er nokkuð ljóst. Ég sé núna að það var mikill þrýstingur frá Evrópusambandinu en ég tók einnig eftir því að meira að segja ykkar eigin ráðgjafi frá Bandaríkjunum [Lee Buchheit] notaði hugtakið „endurgreiða“ í viðtali í íslensku sjónvarpi. Ef þú notar hugtakið endurgreiðslu þá ertu að gefa í skyn að það sé einhver skuld til staðar sem beri að greiða. Eins og ég hef alltaf sagt þá er tungumálið það mikilvægasta sem við höfum í lögfræðinni. Það er frægt austurrískt skáld frá fyrri hluta 20. aldar, Karl Kraus, sem sagði að tungumálið væri húsbóndi hugsunar okkar en ekki þjónn hennar. Ef þú notar orðið endurgreiðsla þá gefurðu í skyn að þú skuldir. Við komumst að þeirri niðurstöðu að þið skulduðuð ekki og þess vegna þurftuð þið ekki að borga neitt.“Var Icesave-málið minnistæðasta mál sem þú dæmdir í? „Já, án nokkurs vafa.“ ESB-málið Evrópusambandið Icesave Sviss Utanríkismál Þriðji orkupakkinn Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Rússar vara við því að hrapað sé að ályktunum áður en rannsókn lýkur Erlent Hættulega heitir dagar fleiri og mannskæðari en áður Erlent Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Innlent Holtavörðuheiði enn lokuð Innlent Margt bendi til að Rússar hafi haft aðkomu að flugslysinu Erlent Spáir stillu og miklu svifryki um áramótin Veður
Carl Baudenbacher, sem er svissneskur ríkisborgari, var dómari við EFTA-dómstólinn í 22 ár sem fulltrúi Liechtenstein en starfar nú sjálfstætt við lögfræðiráðgjöf með aðsetur í Lundúnum. Baudenbacher dæmdi í mörgum stefnumarkandi málum sem snerta Íslendinga með beinum hætti. Þar má nefna mál Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur og Icesave-málið. Baudenbacher var á Íslandi nýverið vegna lögfræðilegrar álitsgerðar sem hann vann um þriðja orkupakkann að beiðni utanríkisráðherra. Annars vegar var hann beðinn að svara því hvaða afleiðingar það hefði ef íslenska ríkið myndi hafna því að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 með afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara vegna þriðja orkupakkans. Hins vegar var Baudenbacher beðinn að meta möguleika Íslands á að semja um undanþágu frá reglugerð um Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) en valdheimildir þessarar stofnunar eru eitt heitasta þrætuepli þriðja orkupakkans. Ég settist niður með Baudenbacher á veitingahúsinu við Sand Hótel á Laugavegi til að ræða ýmis önnur mál sem hann hefur mikla þekkingu á. Þar má nefna þróun EES-samstarfsins í víðu samhengi, Brexit, samband Sviss við Evrópusambandið og Icesave-málið. Neðst er hljóðupptaka af viðtalinu fyrir þá sem kjósa frekar að hlusta. EES-samningurinn fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli en með samningnum skuldbatt íslenska ríkið sig með þjóðréttarsamningi til að taka upp heilt regluverk í einni svipan þar sem verulegur hluti af löggjöf Evrópusambandsins var innnleiddur í íslenskan rétt. Helsti tilgangur EES-samningsins er að stækka innri markað Evrópusambandsins til yfirráðasvæðis EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein í því markmiði að skapa eitt einsleitt efnahagssvæði.Ég vil byrja á þróun EES-samningsins því á Íslandi hefur verið mikil umræða meðal fræðimanna um valdframsal og 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar sem hefur verið óbreytt frá 1920. Danir settu inn sérstakt ákvæði um valdframsal til alþjóðastofnana í dönsku stjórnarskrána árið 1953 og Norðmenn settu slíkt ákvæði í norsku stjórnarskrána árið 1962 en Íslendingar hafa aldrei breytt íslensku stjórnarskránni til að heimila slíkt valdframsal. Íslenskir fræðimenn hafa því sett fram efasemdir um hvort þróun EES-samstarfsins rúmist innan íslensku stjórnarskrárinnar vegna skorts á slíku ákvæði. Sú þróun hefur orðið á Evrópuréttinum að miðlægum stofnunum Evrópusambandsins hefur í auknum mæli verið falið vald til að taka bindandi ákvarðanir fyrir aðildarríki sambandsins. Hér má nefna valdheimildir European Banking Authority vegna tilskipana um sameiginlegt fjármálaeftirlit og þá má einnig nefna hér valdheimildir ACER vegna þriðja orkupakkans. Þetta hefur verið leyst gagnvart EFTA/EES-ríkjunum með því að fela Eftirlitsstofnun EFTA valdheimildir þessara miðlægu stofnana ESB. Þegar samið var um EES-samninginn árið 1989 þá var skýr fyrirvari um að það væri ekki ætlunin að setja upp nýjar stofnanir sem myndu taka við valdheimildum frá EFTA-ríkjunum og stofnunum Evrópusambandsins en þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst. Finnst þér þessi þróun rýra eða draga úr fullveldi EFTA-ríkjanna? „Ég þarf að fara varlega við túlkun á íslenskum lögum því ég þekki þau ekki nægilega vel. En ég hef fylgst með íslenskum fræðimönnum takast á undanfarin tuttugu ár og ég hef alltaf haft það á tilfinningunni, með nokkrum undantekningum þó, að þeir séu of hallir undir pósitívisma og þeir einblína of mikið á textaskýringar og hinn ritaða lagabókstaf. Maður getur einnig fært rök fyrir því að að íslenska stjórnarskráin hafi þróast utan rituðum texta hennar því Ísland hefur fullgilt EES-samninginn og það var ekki aðeins lagaumgjörð fjármálamarkaðarins sem leiddi til þeirra vandamála sem þú nefnir og er núna til umfjöllunar vegna þriðja orkupakkans. Því þetta var einnig í samkeppnislöggjöfinni. Við höfum ákveðið valdframsal þar. Stjórnarskrár ríkja hafa þróast utan ritaðs texta og það er viðurkennt í nær öllum ríkjum að stjórnarskrár veiti þau réttindi sem þar koma fram en einnig óskrifuð réttindi sem eru hinum ritaða texta til fyllingar sem hafa þróast af dómstólum eða annarri lagaframkvæmd,“ segir Baudenbacher. Þegar EES-samningurinn tók gildi átti sér stað nokkuð víðtækt valdframsal á sviði samkeppnismála. Það birtist í því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fékk valdheimildir til að taka ákvarðanir sem snúa að einstaklingum og lögaðilum vegna brota á samkeppnisreglum. Stofnunin getur sektað fyrirtæki og eru þessar sektir aðfararhæfar. Þá verða ákvarðanir ESA ekki bornar undir dómstóla í aðildarríkjunum heldur undir EFTA-dómstólinn til endanlegrar úrlausnar. Í reglugerð nr. 1/2003 um framkvæmd samkeppnisreglna á EES-svæðinu er ákvæði sem skyldar samkeppnisyfirvöld og dómstóla í aðildarríkjunum til að beita tilteknum ákvæðum Rómarsáttmálans þegar þau beita innlendum samkeppnislögum gagnvart samningum og venjum sem geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna. Þessi reglugerð var umdeild og þá ekki síst ákvæði hennar sem er bindandi fyrir dómstóla EFTA/EES-ríkjanna þriggja. Er þetta kannski stærsta eðlisbreytingin sem við höfum séð á EES-samningnum frá 1994? „Fræðilega séð, já. Ég var alltaf nokkuð gagnrýninn á að þetta væri bindandi fyrir dómstóla aðildarríkjanna. Ég var virkur í umræðunni sem leiddi til þessarar reglugerðar, nr. 1/2003, því ég var með eina af aðal ráðstefnunum við Háskólann í St. Gallen í Sviss og var forseti þessarar ráðstefnu í aldarfjórðung. Einn af helstu gerendunum í þessu máli, Mario Monti sem var í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, kom alltaf á þessa ráðstefnu og við ræddum þetta ítarlega. Ég var alltaf gagnrýninn á þetta en þegar maður metur þetta frá praktísku sjónarhorni þá held ég að dómstólar aðildarríkjanna hafi alveg ráðið við þetta.“Í höndum EFTA-ríkjanna sjálfra að tryggja áframhaldandi virkni EESHvernig sérðu EES-samstarfið þróast á næstu árum? Við höfum séð að ESA fær valdheimildir þessara miðlægu stofnana Evrópusambandsins á sviði fjármálaeftirlits og einnig núna með þriðja orkupakkanum. Er þetta þróun sem er komin til að vera og munum við sjá meira af þessu? „Ég átta mig á því að þegar Evrópusambandið tók upp þetta fyrirkomulag að fela miðlægum stofnunum vald til að taka bindandi ákvarðanir þá skapaði það meiriháttar vandamál fyrir EES-samninginn. Þegar EES-samningurinn var saminn þá voru engar stofnanir af þessum toga. Satt að segja þá er ég dálítið hissa á því að EFTA-stoðin með Íslandi, Noregi og Liechtenstein hafi tekist að semja um þessa málamiðlun við Evrópusambandið sem gerir ESA kleift að vinna með þessum miðlægu stofnunum ESB. Þetta er málamiðlun sem EFTA-ríkin ættu að taka fagnandi því við þurfum að taka pólitíska aflsmuni með í reikninginn. Þið megið ekki gleyma að það eru 28, bráðum 27, öflug aðildarríki hinum megin en þrjú lítil ykkar megin. Þið getið ekki afgreitt þetta vandamál með pólitískum yfirlýsingum um að fullveldið sé heilagt og svo framvegis. Ég held að það hafi verið mikill sigur fyrir EFTA-ríkin að ESA hafi fengið þessar valdheimildir. Svo veltur það hvernig tekst til á EFTA-ríkjunum sjálfum. Ef EFTA-ríkin senda öflugt fólk til ESA þá hefur stofnunin þann styrk sem þarf til að standa uppi í hárinu á þessum miðlægu stofnunum Evrópusambandsins. Ef ríkin senda bara venjulega embættismenn þá mun þetta ekki ganga vel. Það er í höndum ríkjanna sjálfra að þetta fyrirkomulag virki vel. Þótt pólitískur styrkur skipti máli þá er það ekki þannig að Evrópusambandið muni bara leggja til einhverjar ákvarðanir án þess að taka rök EFTA-stoðarinnar með í reikninginn. Ef þú hefur sterk rök þá geturðu alltaf komið í veg fyrir tilteknar ákvarðanir. Þegar ég var forseti EFTA-dómstólsins þá höfðum við mjög mikil áhrif á dómaframkvæmd Evrópudómstólsins (innsk. European Court of Justice, ECJ) því í lok dagsins þá er það lögfræðilegur rökstuðningur sem ræður.“Það má færa rök fyrir því að við séum alltaf að uppfæra EES-samninginn því við erum alltaf að innleiða nýjar tilskipanir og reglugerðir frá Evrópusambandinu. En hvernig er andrúmsloftið í Brussel gagnvart aðild EFTA-ríkjanna að Evrópusambandinu? Er vaxandi þrýstingur meðal embættismanna í Brussel að það sé langtímamarkmið að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein fari þangað inn?„Ég held að eftir 25 ár þá sé þessi hugmynd að EES-aðild sé aðeins biðstofa fyrir framtíðaraðild að Evrópusambandinu ekki lengur gild. EES-samningurinn hefur sannað gildi sitt sem sjálfstæð aðild að innri markaðnum. Það er enginn í Brussel að þrýsta á að EFTA-ríkin gangi í sambandið. Evrópusambandið sýnir því hins vegar aðeins áhuga að viðhalda þessu flókna samstarfi, sem er tímafrekt og dýrt, svo lengi sem EFTA-stoðin er uppbyggð á trúverðugan hátt. Það gerir þetta brothætt. Með aðeins þrjú ríki þá höfum við litlar stofnanir. ESA er lítil stofnun, EFTA-dómstóllinn er lítill. Ég segi ekki að þessar stofnanir séu veikburða, alls ekki. Þær eru hins vegar viðkvæmar. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður að EFTA-ríkin verða að senda sitt besta fólk til ESA og til EFTA-dómstólsins. Þegar ég hætti sem dómari við EFTA-dómstólinn hitti ég alla toppana í Brussel og þeir sögðu við mig að svo lengi sem þeir sæju EFTA-dómstólinn leysa vel úr sínum verkefnum á framúrskarandi hátt þá væri þetta þess virði.“Mig langar að ræða aðeins um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit. Hverjar heldur þú að verði lyktir þess máls? „Ég hef setið marga fundi um Brexit og veitt báðum deildum breska þingsins ráðgjöf og breska utanríkisráðuneytinu einnig. Núna eru lyktir þessa máls algjörlega óútreiknanlegar og því er ómögulegt að spá fyrir um þær. Ég vona hins vegar að þeir finni lausn sem er eitthvað í líkingu við EES-samstarfið því ég trúi því að Bretland eigi að viðhalda aðgangi að innri markaði Evrópusambandsins. Með því myndu þeir einnig endurheimta fullveldi á mikilvægum sviðum eins og EFTA-ríkin gera núna. Hins vegar eru þeir sem vilja hart Brexit og fara alveg út. Svo er hópur sem vill vera áfram inni. Ég er hluti af hópi sem er að veita þverpólitískum samtökum ráðgjöf og við ráðleggjum lausn í líkingu við EES. EFTA-stoðin eins og hún er núna myndi styrkjast mikið við þetta og þetta myndi einnig styrkja EFTA-dómstólinn því breskir dómarar hafa frábært orðspor. Vandamál EFTA-dómstólsins hefur oft falist í því að fólk hefur verið tilnefnt til setu í dómnum sem hefur bakgrunn sem embættismenn. Það er vafa undirorpið hvort einstaklingar í slíkri stöðu geta breyst á einni nóttu og slitið á tengslin við höfuðborgina. Bretar eru ekki þannig. Bretar fundu upp hugmyndina um sjálfstæði dómsvaldsins. Persónulega væri ég mjög hlynntur lausn af þessu tagi því ég dáist að rökræðustíl Breta og þeirri staðreynd að þeir eru ekki sérstaklega hrifnæmir og þeir eru ófeimnir við að efast um tillögur annarra.“Heldurðu að 50. gr. Lissabon-sáttmálans sé orðuð með nægilega skýrum hætti til að ráða við Brexit og heldurðu að úrsögn Bretlands muni fela í sér einhvers konar fordæmi við túlkun greininni ef svo ólíklega vill til að eitthvað annað ríki ákveði að segja sig úr Evrópusambandinu? „Þessi 50. gr. hefur ekki reynst fullkomin en hún er þarna og henni verður ekki breytt. Á þessari stundu sé ég ekki að eitthvað annað ríki fylgi á hæla Bretlands út úr Evrópusambandinu en ef Bretar verða hluti af EES-samstarfinu þá gæti það haft talsverð áhrif á mitt heimaland, Sviss, því í skoðanakönnunum í Sviss eru um 44 prósent hlynnt aðild Sviss að EES-samningnum. Vandamál Sviss er að í utanríkisráðuneytinu er hópur manna sem einblínir á aðild að Evrópusambandinu og þeir grafa undan öllum tilraunum til að verða hluti af EES. Ég er á meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við aðild Sviss að EES. Ef við hefðum EFTA-stoð sem samanstæði af Íslandi, Liectenstein, Noregi, Bretlandi og Sviss þá væri það nokkuð magnað.“Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sæmdi Carl Baudenbacher stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu í móttöku á Bessastöðum í júní 2018.Staða Sviss gagnvart ESB er sjálfskaparvíti Sviss stendur utan bæði Evrópusambandsins og EES-samningsins en er í staðinn með tvíhliða samnina við Evrópusambandið. Sviss er sambandsríki 26 kantóna sem hver fyrir sig er nokkuð sjálfstæð. Sérhver kantóna er með eigið þing og þar er kosið um allar meiri háttar ákvarðanir í íbúakosningum. Ríkisstjórn sambandsríkisins hefur fundarstað í Bern en í ríkisstjórninni sitja sjö fulltrúar, fyrir mismunandi kantónur, sem mynda æðstu stjórn landsins.Sviss er aðili að EFTA en felldi aðild að EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Sviss er í dag er með 120 tvíhliða samninga við Evrópusambandið en hefur verið í viðræðum við Evrópusambandið um hvernig framtíðarsambandi ríkisins við ESB skuli háttað. Meðal annars er deilt um innleiðingu ESB-löggjafar í Sviss og túlkun hennar. Hvernig heldur þú að þetta þróist? „Það er mikilvægt að gera greinarmun á tvennu í þessu sambandi. Í fyrsta lagi höfum við þessa tvíhliða samninga sem voru gerðir löngu fyrir 1992. Sá mikilvægasti er fríverslunarsamningur og það eru margir eldri samningar. Af þessum hundrað og tuttugu samningum þá eru um það bil tuttugu sem eru mikilvægir. Hinir samningarnir eru um alls konar landbúnaðarvörur, osta og slíkt. Við höfum þessa samninga sem skuldbinda Sviss til að gangast undir ESB-löggjöf, ekki ósvipað og gerist í EES. Síðan höfum við svokallaða sjálfstæða innleiðingu ESB-gerða. Þetta gerir Sviss eitt og sér og þetta fyrirkomulag veitir ekki aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Þetta er mjög ófullkomin lausn. Hvað varðar tvíhliða samningana sjálfa þá byggja þeir á grunni þar sem engum stofnunum er til að dreifa. Það er engin eftirlitsstofnun og enginn dómstóll. Það er nákvæmlega þarna sem vandamálin hófust því árið 2008 sagði Evrópusambandið við Sviss: Þið verðið að hafa eftirlitsstofnun og þið verðið að vera með dómstól. Við teljum að þið munið ekki ganga í sambandið svo þetta fyrirkomulag gengur ekki til lengdar.“Vikuritið The Economist segir að Evrópusambandið sé að reyna að þvinga Sviss í nýjan fríverslunarsamning og þessu hefur verið lýst sem gíslatöku, hvernig ESB hefur nálgast þessar viðræður. Hefur Evrópusambandið sýnt Sviss ósanngirni í þessum viðræðum? „Nei, ESB hefur ekki sýnt ósanngirni. Það hefur bara notfært sér veikleika svissneskra stjórnvalda og fáfræði bæði ríkisstjórnarinnar og stjórnkerfisins. Það voru stjórnvöld í svissneska sambandsríkinu sem komu sér í þessa erfiðu stöðu með fáfræði og hroka. Þetta er sjálfskaparvíti. Evrópusambandið bauð Sviss árið 2012 að nota stofnanir EFTA-stoðarinnar. Það hefði þýtt að ágreiningur vegna tvíhliða samninganna hefði farið undir ESA og undir lögsögu EFTA-dómstólsins. Evrópusambandið bauð þeim meira að segja að semja sérstaklega um að hafa fulltrúa hjá ESA og dómara við EFTA-dómstólinn fyrir þessa tvíhliða samninga en svissnesk stjórnvöld höfnuðu þessu og völdu fremur að fara undir lögsögu Evrópudómstólsins. Þannig hófust þessi vandræði og núna sitja Svisslendingar fastir.“Carl Baudenbacher, sem hér er annar frá vinstri, var dómari við EFTA-dómstólinn í 22 ár. Baudenbacher á vinstri hönd er Páll Hreinsson, íslenski dómarinn við EFTA-dómstólinn.Efast um að Svisslendingar samþykki lögsögu EvrópudómstólsinsHvernig mun þetta leysast og hvernig verður sambandi Sviss við Evrópusambandið hagað?„Ég get ekki ímyndað mér að Svisslendingar muni segja já í þjóðaratkvæðagreiðslu um lögsögu Evrópudómstólsins. Það sem hefur gerst í millitíðinni er að það varð kristaltært að þetta módel um lögsögu Evrópudómstólsins myndi ekki njóta stuðnings svissnesku þjóðarinnar. Evrópusambandið kom þá með aðra lausn, sambandið lék eiginlega á Svisslendinga með því að bjóða þeim „úkraínsku leiðina“. Utanríkisráðherrann þurfti að segja af sér vegna málsins. Þessi leið veitir Sviss að forminu til rétt til að hafa sérstakan gerðardóm en gerðardómurinn verður að óska eftir áliti Evrópudómstólsins í öllum mikilvægum málum. Færð hafa verið rök fyrir því að þetta sé undanfari aðildar að Evrópusambandinu. Ég skrifaði bók um þetta undir ögrandi titlinum Das Schweizer EU-Komplott (Svissneska ESB-samsærið). Ég bjó til hugtakið vendimörk eða PNR um þetta en það stendur fyrir point of no return. Það sem stjórnvöld sambandsríkisins Sviss eru að gera er að búa til eins mörg vendimörk og þau geta. Þetta er hugtak úr flugmáli en þegar flugvél er komin ákveðið langt frá brottfararstað þá getur hún ekki snúið til baka og þá hefur hún náð vendimörkum. Þetta er það sem stjórnvöld í Bern eru að gera. Þetta á ekki eftir að enda vel og þeim á eftir að mistakast í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er á meðal þeirra sem myndu leggjast gegn þessu ef þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.“Þú sagðir þegar þú komst fyrir utanríkismálanefnd Alþingis að marga svissneska embættismenn dreymdi um aðild Sviss að Evrópusambandinu. En aðild verður aldrei samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvað? „Ég held að stuðningur við aðild sé um 15 prósent í skoðanakönnunum. Þetta eru í raun bara landráðamenn úr röðum embættismanna sem reka þessa stefnu og þeir eru að framfylgja eigin stefnu í Evrópumálum. Ríkisstjórn sambandsríkisins er ekki sterk í Sviss (vegna sjálfstæði kantónanna innsk. blm). Sviss er eina þjóðríkið sem fylgir directoire-stjórnskipulaginu frá tímum Robespierre. Þegar ljóst var að einræðisfyrirkomulagið hafði gengið sér til húðar þá tóku menn upp sérstök ráð skipað fimm fulltrúum með það fyrir augum að ráðsmenn myndu hafa taumhald með hver öðrum til að tryggja að enginn þeirra yrði of valdamikill. Svissneska sambandsríkið hefur sjö. Á okkar tímum, þar sem alþjóðavæðingin skapar fleiri vandamál en fyrir þremur áratugum eða svo, þá er þetta veikburða ríkisstjórn.“Icesave-málið er minnisstæðastMig langar að enda þetta spjall okkar á dómi EFTA-dómstólsins frá 28. janúar 2013. Dómnum í Icesave-málinu sem er líklega frægasta dómsmál sem rekið hefur verið fyrir EFTA-dómstólnum. Evrópusambandið túlkaði tilskipun 94/19 um innistæðutryggingar þannig að í tilskipuninni fælist svokölluð árangursskylda. Ég sagði við á sínum tíma við Jóhannes Karl Sveinsson, einn af lögmönnunum í íslenska lögmannateyminu, að krafa um árangursskyldu væri ekkert annað en krafa um óbeina ríkisábyrgð, enda var ríkið eitt burðugt til að fjármagna innistæðutryggingasjóðinn, sem kemur ekki fram í texta tilskipunarinnar. Er ekki óhætt að slá því föstu að Evrópusambandið hafi alltaf beitt fremur vafasamri lögskýringu á þessa tilskipun?„Jú, algjörlega, þú hefur rétt fyrir þér. Ég skrifaði um þetta í æviminningum mínum, Judicial Independence. Evrópusambandið hafði kárlega pólitískt markmið í þessu máli því þeir gerðu Íslandi erfitt fyrir að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. José Manuel Barroso, sem þá var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, reyndi einnig að þröngva Íslandi inn í Evrópusambandið af mörgum augljósum ástæðum, vegna auðlinda ykkar, vegna stöðu ykkar í Norður-Atlantshafi. Aðild Íslands hefði verið frábær fyrir Evrópusambandið. Ef Ísland hefði tapað málinu hefði það kannski ekki átt neinn annan valkost í pólitísku tilliti. En þið töpuðuð ekki málinu af því að frá lögfræðilegu sjónarhorni var alveg skýrt að það var engin árangursskylda í tilskipuninni. Sú hugmynd að EFTA-dómstóllinn hafi átt að komast að þeirri niðurstöðu að það væri gat í lagatextanum og fylla það gat í samræmi við óskir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ESA var algjörlega útilokað. Það er ekki hægt að stunda framsæknar lögskýringar til fyllingar á lagatexta á kostnað heillrar þjóðar. Það hefði verið svívirðilegt og það hefði verið versta dæmið um lögfræðilega aðgerðastefnu eða framsækna dómaframkvæmd sem ég hefði orðið vitni að á öllum mínum starfsferli. Svo við slepptum því. Síðari röksemdarfærslan var af hagrænum toga. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef við myndum verðlauna óábyrga hegðun fjármálafyrirtækja með því að segja, það skiptir ekki máli hvað þið gerið því ríkið borgar, þá myndi það ýta undir freistnivanda (e. moral hazard). Það var jafnframt vikið að því í aðfaraorðum tilskipunarinnar að forðast bæri freistnivanda. Við vorum eini dómstóllinn í Evrópu sem reis undir nafni hvað þetta snertir. Það sem Evrópusambandið gerði eftir fjármálakreppuna var að bjarga bönkum með fé skattgreiðenda. Það er algjört hneyksli að í meintu markaðshagkerfi sé þetta lausnin. Konan mín skrifaði doktorsritgerð um freistnivanda og því skildi ég kjarnann í málinu.“Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið birti skýrslu sína 12. apríl 2010 og það er sérstakur kafli um innistæðutryggingakerfið í skýrslunni í 5. bindi hennar. Þar er meðal annars vitnað í doktorsritgerð sem var skrifuð við lagadeild Oslóarháskóla um tilskipun 94/19 eftir norskan lögfræðing, Inge Kaasen, og orðið ríkisábyrgð kemur ekki einu sinni fyrir í texta ritgerðarinnar. Svo við höfðum lögskýringuna árið 2010 en samt héldu stjórnvöld áfram að berjast fyrir ríkisábyrgð sem var ekki til staðar og stjórnmálamenn á Íslandi voru tilbúnir að samþykkja túlkun Evrópusambandsins á tilskipuninni. Meðal annars af þessari ástæðu var þetta gríðarlega mikilvægur dómur hjá EFTA-dómstólnum. „Ég veit. Ég vissi ekki af þessum skjölum. Hvorki þessari doktorsritgerð né þessum skrifum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar en ég veit að margir stjórnmálamenn á Íslandi á þeim tíma keyptu kenninguna um ríkisábyrgð því án hennar hefðu þeir ekki farið í þessar aðildarviðræður. Það er nokkuð ljóst. Ég sé núna að það var mikill þrýstingur frá Evrópusambandinu en ég tók einnig eftir því að meira að segja ykkar eigin ráðgjafi frá Bandaríkjunum [Lee Buchheit] notaði hugtakið „endurgreiða“ í viðtali í íslensku sjónvarpi. Ef þú notar hugtakið endurgreiðslu þá ertu að gefa í skyn að það sé einhver skuld til staðar sem beri að greiða. Eins og ég hef alltaf sagt þá er tungumálið það mikilvægasta sem við höfum í lögfræðinni. Það er frægt austurrískt skáld frá fyrri hluta 20. aldar, Karl Kraus, sem sagði að tungumálið væri húsbóndi hugsunar okkar en ekki þjónn hennar. Ef þú notar orðið endurgreiðsla þá gefurðu í skyn að þú skuldir. Við komumst að þeirri niðurstöðu að þið skulduðuð ekki og þess vegna þurftuð þið ekki að borga neitt.“Var Icesave-málið minnistæðasta mál sem þú dæmdir í? „Já, án nokkurs vafa.“