Dreifiaðili myndarinnar í rússlandi staðfesti við ríkisfjölmiðilinn þar í landi að atriðin sem um ræðir hafi verið fjarlægð og segir það hafa verið gert til þess að fylgja rússneskum lögum.
Söngvarinn gaf ásamt framleiðendum myndarinnar út yfirlýsingu í gær þar sem ritskoðuninni var „hafnað eins harkalega og hægt er.“
Í yfirlýsingunni, sem birtist á Twitter-síðu söngvarans í gær, segir hann ritskoðunina „til marks um þá klofnu veröld sem við búum enn í og hvernig hún getur hafnað ást tveggja einstaklinga á jafn grimmilegan hátt.“
„Við trúum á að byggja brýr og opna á samtöl, og við munum halda áfram að leitast við að brjóta niður hindranir þar hlustað er á alla til jafns, hvar sem er í heiminum,“ segir einnig í yfirlýsingunni.
pic.twitter.com/WT05TvCHT7
— Elton John (@eltonofficial) May 31, 2019
Blaðamenn sem sóttu forsýningu Rocketman í Moskvu áætla að um fimm mínútur af myndefni hafi verið klipptar út úr upphaflegri útgáfu myndarinnar.
Kvikmyndarýnandinn Anton Dolin sagði frá því á Facebook-síðu sinni að „öll atriði sem innihéldu kossa, kynlíf og munnmök milli karlmanna“ hafi verið klippt út. Hann bætti við að svæsnasta dæmið um ritskoðunina væri að mynd af Sir Elton og eiginmanni hans, sem birtist við lok myndarinnar, hafi verið fjarlægð.
Annar blaðamaður sem var viðstaddur forsýninguna sagði atriði sem sýndu neyslu fíkniefna einnig hafa verið fjarlægð.
Olga Lyubimova, sem fer fyrir kvikmyndadeild menningarmálaráðuneytis Rússlands, segir engar kröfur um breytingar á myndinni hafa verið settar fram af hálfu ráðuneytisins.
„Það er ekkert launungarmál að margar vestrænar og rússneskar myndir tengjast fíkniefnaneyslu. Þannig væri rangt að halda því fram að við stunduðum nokkurs konar ritskoðun.“
Hún bætti því þó við að gert væri ráð fyrir að kvikmyndir fylgdu rússneskum lögum er kemur að „barnagirnd, hatri á grundvelli uppruna eða trúar og klámi.“
Sir Elton hefur áður gagnrýnt stefnu Rússa í málefnum samkynhneigðra. Árið 2015 sagði söngvarinn ástsæli, í samtali við BBC, að viðhorf Vladímírs Pútín Rússlandsforseta til réttinda samkynhneigðra væru „fáránleg,“ og lýsti yfir áhuga á að hitta forsetann til þess að fara yfir þau mál.