Ferðalagið hófst klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma. Mjaldrarnir flugu frá Sjanghæ til Íslands en þeir hafa dvalið í kínverska dýragarðinum Shang Feng Ocean World. Vélin sem flutti hvalina lenti hér á Íslendi rétt fyrir tvö og eftir tollafgreiðslu og skoðun dýralækna var lagt af stað Suðurstrandarveginn áleiðis að Landeyjahöfn.
Fyrirhugað var að stoppa í Grindavík og á Selfossi en ákveðið var að hætta við það til að vinna upp tíma eftir að töf varð á brottför frá Kína.
Rétt um klukkan átta í kvöld var hins vegar skyndilega ákveðið að stöðva á Selfossi eftir að fylgdarlið hvalanna missti samband við annan þeirra. Það gekk þó greiðlega að ganga úr skugga um að allt væri í lagi og haldið var áfram áleiðis að Landeyjahöfn í lögreglufylgd. Þá beið Herjólfur á eftir hersingunni í Landeyjum og sigldi með systurnar yfir í Heimaey.

Rúm þrjú ár eru síðan erindi vegna þessa innflutnings barst Matvælastofnun. Á þeim tíma hafa skilyrði til innflutnings verið mótuð m.t.t. heilbrigðis og velferðar dýranna annars vegar og smithættu hins vegar. Var þetta gert í samráði við innlenda og erlenda sérfræðinga.
Vísir fylgdist með ferðalagi mjaldrasystranna, alla leið frá Kína til Vestmannaeyja, í dag. Vaktina má nálgast í heild sinni hér.