Atli Ævar Ingólfsson kemur inn í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í handbolta fyrir leikinn gegn Tyrklandi í undankeppni EM 2020 í dag.
Atli Ævar tekur sæti Arnars Freys Arnarssonar í íslenska hópnum. Að öðru leyti er hópurinn eins skipaður og gegn Grikklandi á miðvikudaginn.
Ekki liggur fyrir hvort Arnar Freyr er meiddur. Hann náði sér ekki á strik gegn Grikkjum og klúðraði öllum fjórum skotunum sínum í leiknum.
Atli Ævar varð Íslandsmeistari með Selfossi í vor. Hann hefur leikið ellefu landsleiki og skorað tíu mörk.
Íslenska liðið er svo gott sem búið að tryggja sér farseðilinn á EM. Allt annað en tólf marka tap þýðir að Ísland fer á ellefta Evrópumótið í röð.
Leikur Íslands og Tyrklands hefst klukkan 16:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

