Spánn vann 3-0 sigur á Svíþjóð á Santiago Bernabéu í Madríd í undankeppni EM 2020 í kvöld.
Spánverjar hafa unnið alla leiki sína í undankeppninni og eru með tólf stig á toppi F-riðils. Svíar eru í 2. sæti riðilsins með sjö stig.
Staðan var markalaus í hálfleik. Á 64. mínútu fengu Spánverjar vítaspyrnu. Fyrirliðinn Sergio Ramos fór á punktinn og skoraði. Þetta var sjöunda mark hans í síðustu átta leikjum fyrir spænska landsliðið.
Spánn fékk annað víti á 84. mínútu. Ramos leyfði Álvaro Morata að taka spyrnuna og hann skoraði.
Þremur mínútum síðar kom Mikel Oyarzabal, leikmaður Real Sociedad, Spáni í 3-0 með sínu fyrsta landsliðsmarki.
