Allir vegir á hálendi Íslands teljast nú færir, samkvæmt nýjasta hálendiskorti Vegagerðarinnar, sem birt var í morgun. Dyngjufjallaleið og Gæsavatnaleið, norðan Vatnajökuls, ásamt leiðum um Stórasand, norðan Langjökuls, voru lengst lokaðar í ár, en þær voru opnaðar umferð í gær, sunnudag.
Flestir fjallvegir opnuðust í fyrra fallinu þetta sumarið, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar, og sumir allt að mánuði fyrr, eins og Kjalvegur. Hann hefur stundum ekki opnast fyrr en undir lok júnímánaðar en varð núna fær í lok maímánaðar. Þá opnaðist Fjallabaksleið syðri hálfum mánuði fyrr í ár en í fyrra.
Tekið skal fram að flestir hálendisvegir teljast jeppavegir og margir eru aðeins færir öflugum jeppum.
Búið að opna alla vegi á hálendinu

Tengdar fréttir

Kaldidalur og Kjalvegur færir og stutt í að Sprengisandur opnist
Hálendisvegir landsins opnast óvenju snemma í ár, jafnvel allt að mánuði fyrr en venjulega. Búið er að opna Kjalveg og Kaldadalsveg og Sprengisandsleið gæti opnast í næstu viku.