Á þessum degi árið 1974 mætti Holland Vestur-Þýskalandi í fyrsta úrslitaleik sínum á HM karla. Og í dag, nákvæmlega 45 árum frá úrslitaleiknum í München 1974, mætir Holland Bandaríkjunum í fyrsta úrslitaleik sínum á HM kvenna.
45 – The @Oranjevrouwen will play their first #FIFAWWC final exactly 45 years after the Dutch men’s team played its first World Cup final (July 7, 1974). Orange. #NEDpic.twitter.com/5Mpq5wCCZD
— OptaJohan (@OptaJohan) July 7, 2019
Hollensku stelpurnar vonast væntanlega eftir annarri og betri útkomu en í úrslitaleiknum hjá Johan Cruyff og félögum fyrir 45 árum.
Holland komst yfir strax á 2. mínútu þegar Johan Neeskens skoraði úr vítaspyrnu. Paul Breitner jafnaði úr annarri vítaspyrnu á 25. mínútu og tveimur mínútum fyrir hálfleik skoraði Gerd Müller sigurmark Vestur-Þjóðverja sem urðu þar með heimsmeistarar í annað sinn.
Holland komst einnig í úrslit á HM karla 1978 og 2010 en tapaði í bæði skiptin, fyrir Argentínu og Spáni.
Hollendingar eru hins vegar með 100% árangur í úrslitaleikjum á EM, bæði karla og kvenna. Hollendingar urðu Evrópumeistarar karla 1988 eftir sigur á Sovétmönnum, 2-0, og Holland vann Danmörku, 4-2, í úrslitaleik EM kvenna fyrir tveimur árum.
Með sigri á Bandaríkjunum í Lyon í dag verður Holland því handhafi bæði heims- og Evrópumeistaratitilsins. Verkefnið er þó ærið gegn heimsmeisturum Bandaríkjanna sem hafa unnið ellefu leiki í röð á HM.
Leikur Hollands og Bandaríkjanna hefst klukkan 15:00 í dag.