Efstu tvö lið Inkasso-deildar kvenna, FH og Þróttur R., unnu bæði sína leiki í kvöld.
FH vann 3-1 sigur á Aftureldingu í Kaplakrika. Birta Georgsdóttir skoraði tvö mörk fyrir FH-inga og Helena Ósk Hálfdánardóttir eitt. Darian Powell skoraði mark Mosfellinga sem eru í 4. sæti deildarinnar.
FH er á toppnum með eins stigs forskot á Þrótt sem vann dramatískan sigur í Grindavík, 2-3.
Olivia Marie Bergau skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Það var hennar annað mark í leiknum. Linda Líf Boama var einnig á skotskónum fyrir Þrótt.
Nicole Maher og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir (sjálfsmark) skoruðu fyrir Grindavík sem er í 8. sæti deildarinnar.
Haukar unnu sinn annan leik í röð þegar þeir lögðu botnlið ÍR að velli, 0-1, í Mjóddinni. Vienna Behnke skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks.
Haukar eru í 5. sæti deildarinnar með tólf stig. ÍR-ingar eru án stiga á botninum.
Fjölnir vann 3-1 sigur á Augnabliki. Þetta var þriðji sigur Fjölniskvenna í síðustu fjórum leikjum.
Sara Montoro skoraði tvö mörk fyrir Fjölni og Rósa Pálsdóttir eitt. Fjölniskonur eru í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar.
Ásta Árnadóttir, fyrrverandi landsliðskona, skoraði mark Augnabliks sem er í 6. sæti deildarinnar.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

