Kolbeinn Sigþórsson stimplaði sig af krafti inn í sænska boltann um helgina þegar hann skoraði tvö mörk í 3-0 sigri AIK á Elfsborg á laugardag.
Síðustu ár hafa verið Kolbeini erfið þar sem meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn og voru þetta fyrstu mörk Kolbeins í félagsliðafótbolta síðan hann skoraði eitt mark fyrir franska félagið Nantes 10.febrúar 2016 í 3-4 sigri á Bordeaux í bikarkeppninni.
Síðasta deildarmark Kolbeins kom skömmu áður, þann 23.janúar 2016, einnig gegn Bordeaux en þá í 2-2 jafntefli í Ligue 1.
Raunar hefur Kolbeinn ekki spilað ýkja marga leiki síðan þá, nema með landsliðinu en Kolbeinn hefur nú komið við sögu í fimm leikjum síðan hann gekk í raðir AIK og var þetta jafnframt hans annar leikur í byrjunarliði.
„Þetta er frábær tilfinning. Ég hef beðið eftir þessu í þrjú ár og þetta hefur ekki verið auðvelt. Um leið og ég skoraði fann ég að það var þess virði að ganga í gegnum þessa erfiðu tíma,“ sagði Kolbeinn í samtali við sænska fjölmiðla eftir leik.
Á meðan þessi markaþurrð Kolbeins hjá félagsliðum hefur staðið yfir hefur hann engu að síður gert fimm landsliðsmörk en Kolbeinn er næstmarkahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 23 mörk í 50 A-landsleikjum.
Fyrstu mörk Kolbeins í rúm þrjú ár: Sérstök tilfinning að skora eftir þennan tíma
Arnar Geir Halldórsson skrifar

Mest lesið

Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti


Segir hitann á HM hættulegan
Fótbolti

Líkti Cooper Flagg við Kobe Bryant
Körfubolti





