Hætta er á að sú hitabylgja sem nú gengur yfir Frakkland og Evrópu geti valdið frekari skemmdum á Notre Dame dómkirkjunni í París. Þetta segir franski arkitektinn Philippe Villeneuve, sem hefur yfirumsjón með endurreisn kirkjunnar.
Einna helst hefur Villeneuve áhyggjur af því að sá mikli hiti sem íbúar Parísar glími nú við geti orðið til þess að þak kirkjunnar hrynji.
Þó gefa tugir skynjara sem staðsettir eru víða um kirkjuna til kynna að engin merki séu um að hún sé að skemmast. Villeneuve hefur þrátt fyrir það áhyggjur af stöðunni og sagði blaðamönnum frá því að grjótveggir hennar væru enn gegnumblautir af vatni eftir björgunaraðgerðir slökkviliðsmanna í apríl.
Methitastig gæti leitt til þess að veggirnir þorni of fljótt og hefur hann áhyggjur af því að það geti losnað um steinhleðslur kirkjunnar. Slíkt gæti í versta falli leitt til þess að þakhvelfingin gefi sig.
Slökkvilið í París barðist við mikinn eld í hinni sögufrægu dómkirkju í apríl síðastliðnum. Notre Dame kirkjan er eitt helsta kennileiti Parísarborgar og var hún reist á árunum 1163 til 1345.
Áhyggjur af því að hitabylgjan geti valdið skaða á Notre Dame

Tengdar fréttir

Fyrsta messa frá bruna haldin í Notre Dame
Messa var í dag haldin í Vorrar frúar kirkju, Notre Dame, í París. Messan var sérstök fyrir þær sakir að um er að ræða fyrstu messuna sem haldin er í kirkjunni sögufrægu frá brunanum mikla sem olli miklum skemmdum á kirkjunni 15. apríl síðastliðinn.

Ekkert bólar á stórum áheitum til Notre Dame
Ekkert fjármagn hefur enn skilað sér frá þeim frönsku auðmönnum og fyrirtækjum sem hétu því að leggja háar fjárhæðir til uppbyggingar dómkirkjunnar Notre Dame í París eftir stórbrunann 15. apríl síðastliðinn.

Spáir methita víða í Evrópu í annarri hitabylgju sumarsins
Rauð viðvörun vegna hita og hættu á kjarreldum er í gildi í nokkrum löndum Evrópu.

Notre Dame dómkirkjan brennur
Slökkvilið í París í Frakklandi berst nú við mikinn eld í hinni sögufrægu dómkirkju Notre Dame.