Albert Ísleifsson, 27 ára gamall Selfyssingur var jarðaður frá Selfosskirkju síðasta föstudag, 19. júlí. Albert gekk í gegnum súrt og sætt um ævina, byrjaði ungur að neyta fíkniefna en átti alltaf góð tímabil á milli. Hann var með athyglisbrest og ofvirkni. Rétt áður en hann dó vegna ofneyslu fíkniefna hafði hann farið á geðdeild Landspítalans og beðið um innlögn, hann þyrfti aðstoð.
„Honum voru bara boðin einhvern lyf, hann hefði þyrft á innlögn, hann sagði mér alveg að hann væri með sjálfsmorðshugleiðingar og þar fram eftir götunum. Hann hefði þurft að komast í innlögn í einhverjar vikur til að komast yfir pyttinn en það var ekkert gert, hann fékk bara lyfseðil fyrir pillum“, segir Sigrún Ólöf Sigurðardóttir, móðir Alberts heitins.

„Ráðamenn eru gjörsamlega dofnir, tilfinningalega dofnir, þeim er nákvæmlega sama um almenning og sérstaklega um þá sem minna mega sín, ég get ekki séð annað. Þetta er bara virðingarleysi, þetta er bara ómannúðlegt, ég er marg búin að segja það“.

„Það er bara hræðilegt, bara hryllingur, þetta er tilfinning sem ég óska engum að lenda í. Girðið ykkur í brók ráðamenn þessa lands og farið að vinna vinnuna ykkar, vinna fyrir laununum, öll þessi laun sem þið fáið, reynið að vinna fyrir þeim“, segir Sigrún.