Rússneska hnefaleikasambandið hefur hafið rannsókn á dauða Maxims Dadashev. BBC greinir frá.
Rússneski hnefaleikakappinn lést á þriðjudaginn vegna áverka sem hann varð fyrir í bardaga gegn Subriel Matías á föstudaginn.
Þjálfari Dadashevs, Buddy McGirt, stöðvaði bardagann eftir 11. lotu. Dadashev var fluttur á spítala þar sem hann gekkst undir bráðaaðgerð vegna heilablæðingar. Hún dugði ekki til og Dadashev lést í fyrradag. Hann var 28 ára og lætur eftir sig eiginkonu og son.
„Við munum styðja við fjölskyldu hans, m.a. fjárhagslega,“ sagði Umar Kremlev, formaður rússneska hnefaleikasambandsins. Hann vill komast til botns í því sem gerðist í bardaga þeirra Dadashevs og Matías á föstudaginn var.
„Við munum klára að rannsaka málið. Við þurfum að vita hvað gerðist.“
Þjálfarinn McGirt reyndi að sannfæra Dadashev um að hætta að berjast áður en hann kastaði hvíta handklæðinu inn í hringinn eftir 11. lotu. Þá var Dadashev illa farinn eftir fjölmörg þung högg Matías. Hann var studdur út úr hringnum eftir bardagann og kastaði upp á leið sinni til búningsherbergja.
Dauði rússneska hnefaleikakappans rannsakaður

Tengdar fréttir

Þurfti að gangast undir heilaaðgerð eftir fyrsta tapið á ferlinum
Maxim Dadashev var ósigraður þegar hann steig inn í hnefaleikahringinn um helgina en mun líklega aldrei vera sá sami eftir bardagann.

Látinn vegna áverka sem hann varð fyrir í hringnum á föstudaginn
Rússneski hnefaleikakappinn Maxim Dadashev er látinn, 28 ára að aldri.