Undirbúningur framkvæmda við fyrirhugaða Hvalárvirkjun hófst í morgun. Byrjað var að ráðast í lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi sem upplýsingafulltrúi Vesturverks segir minniháttar. Lögreglan á Vestfjörðum var ekki vör við mótmæli á svæðinu í morgun.
Í ljósi þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði til bráðabirgða kröfum landeiganda og umhverfisverndarsamtaka um stöðvun framkvæmda við fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði fyrir helgi, hófst undirbúningur framkvæmda í dag.
Upplýsingafulltrúi Vesturverks, sem er leyfishafi framkvæmdanna, segir að fyrsta skref sé að ráðast í minniháttar lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi, en samkvæmt samningi við Vegagerðina hefur Vesturverk tekið við veghaldi á þeim vegi.
„Þetta eru minniháttar lagfæringar á veginum sjálfum svona þar sem hann er helst erfiður yfirferðar eða þar sem eru krappar beygjur. Síðan munum við undirbúa plan fyrir vinnubúðir við Hvalá sem munu rísa á næsta sumri. Því til viðbótar munum við leggja brú yfir Hvalá, svona færanlega brú. Við þurfum að steypa stöpla undir hana,“ sagði Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks.
Í fréttum okkar um helgina sagðist umhverfisverndarsinni að til greina kæmi að mótmæla framkvæmdunum fyrir vestan. Fréttastofa náði tali af lögreglunni á Vestfjörðum í morgun sem sagðist ekki hafa orðið vör við mótmæli á svæðinu í morgun.
