Samkvæmt úttekt KPMG eru mestu áhrifin, bæði fyrir samfélagið á Austurlandi öllu og á Seyðisfirði, af því að hringtenging komist á, það er að bæði verið gerð göng undir Fjarðarheiði til Fljótsdalshéraðs og að Norðfjörður og Seyðisfjörður verði tengdir tvennum göngum um Mjóafjörð. Hins vegar leggur starfshópurinn ekki til að það verði gert heldur aðeins að farið verði í framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng.
Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, segir gríðarlega mikilvægt að hringtenging komist á.

Hjalti Jóhannesson, landfræðingur hjá Háskólanum á Akureyri, hefur rannsakað samgöngubætur og áhrif þeirra um áratuga skeið. Hann telur vissulega að hringtenging myndi breyta gríðarlega miklu fyrir Austurland í heild en telur að fyrst um sinn sé gott að byrja á að tengja Seyðisfjörð við Hérað.
„Það er ljóst að hringtenging Austfjarða mun vera kostnaðarsöm framkvæmd og því eðlilegt að taka þetta í einhvers konar skrefum. Því er skiljanlegt að farið sé í eina framkvæmd í einu og þá rétt hjá starfshópnum að byrja á því að grafa göng undir Fjarðarheiði,“ segir Hjalti.
Með því að fara leið starfshópsins er því ekki loku fyrir það skotið að hægt verði í framtíðinni að klára umrædda hringtengingu, svo fremi sem í það fáist fjármagn frá ríkinu. Samgönguráðherra hefur velt upp þeirri hugmynd að jafnframt verði krafist veggjalda af vegfarendum.