Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnir skýrsluna á opnum íbúafundi á Hótel Héraði á Egilsstöðum kl. 18 í kvöld. Skýrslan var einnig kynnt á fundi með sveitarstjórnarfólki á Austurlandi í morgun.
Göng undir Fjarðarheiði yrðu lengstu göng Íslands, eða 13,4 km. Verkefnishópurinn áætlar að kostnaður vegna þeirra geti numið um 33-34 milljörðum króna en nákvæm kostnaðargreining hefur ekki verið unnin. Heildarkostnaður við hringtengingu með göngum undir Fjarðarheiði og síðar yfir í Mjóafjörð og Norðfjörð er áætlaður um 64 milljarðar kr. Samanlögð lengd þriggja ganga í hringtengingu er 25,7 km. Vegir utan ganga yrðu samtals um 6-8 km. Með því væri hægt að fara láglendisveg alla leið til Egilsstaða í stað leiðarinnar um Fagradal auk þess sem vegalengdir styttast fyrir byggðir á fjörðunum.
Í skýrslu sinni telur hópurinn veggjöld vera fýsileg fyrir göng af þessu tagi og að íbúar hafi lýst sig reiðubúna til að greiða veggjöld. Verkefnishópurinn telur tekjur af veggjaldi geta staðið undir rekstri og viðhaldi ganganna en myndu skila litlu sem engu í stofnkostnað.
Verkefnishópurinn mat fjóra ólíka valkosti um mögulegar samgöngubætur í skýrslu sinni. Þessar greiningar fylgja skýrslunni. Valkostirnir fjórir voru:

- Valkostur 1 – Jarðgöng undir Fjarðarheiði.
- Valkostur 2 – Jarðgöng undir Fjarðarheiði ásamt göngum til Mjóafjarðar og göngum þaðan til Norðfjarðar.
- Valkostur 3 – Jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, önnur undir Mjóafjarðarheiði milli Mjóafjarðar og Héraðs og þau þriðju milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar.
- Valkostur 4 – Jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og önnur milli Mjóafjarðar og Héraðs.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) ályktaði haustið 2018 að jarðgöng undir Fjarðarheiði væru „forgangsverkefni í jarðgangagerð á Austurlandi, enda aðstæður íbúa á Seyðisfirði slíkar á vetrum að ekki verður við það unað lengur.“
Rannsóknir á jarðfræðilegum aðstæðum lágu fyrir vegna fyrri athugana á jarðgangakostum. Verkefnishópurinn lét á hinn bóginn gera athugun á veðuraðstæðum við helstu jarðgangakosti.
Í verkefnishópnum sátu Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri fram til 1. júlí 2018 , formaður, Adolf Guðmundsson, lögfræðingur, Arnbjörg Sveinsdóttir, sem var forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar fram til 2018, Jóna Árný Þórðardóttir, löggiltur endurskoðandi og Snorri Björn Sigurðsson, forstöðumaður hjá Byggðastofnun. Með hópnum störfuðu Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri og Friðfinnur Skaftason sérfræðingur úr samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Valtýr Þórisson, forstöðumaður áætlana hjá Vegagerðinni.
Skýrsluna má sjá hér.