Sjá einnig: „Sena! Þetta er stórskita!“
Greiðlega hefur gengið að koma áhorfendum inn á tónleikana í kvöld og hafa þeir lítið þurft að bíða. Allir tónleikagestir voru komnir inn á svæðið, að því er virðist án nokkurra óþæginda, þegar Sheeran steig stundvís á svið á Laugardalsvelli á slaginu níu.
Skipuleggjendur tónleikanna tilkynntu í dag að skipulagi á röðinni inn á tónleikana hefði verið breytt í gær þegar tók að lengjast í röðinni. Það skipulag yrði svo notað á tónleikunum í kvöld, sem virðist hafa borið árangur.

Bylgja Dís Birkisdóttir starfsmaður í öryggisgæslu á tónleikunum sagði að gengið hefði mun betur að koma tónleikagestum inn á svæðið í kvöld en í gær.
„Þetta hefur gengið mjög vel. Það hefur ekki verið jafnmikið af röðum og í gær. Þetta hefur gengið smurt fyrir sig og fólk hefur ekki þurft að bíða lengi.“
Bylgja taldi að skipulagsbreytingarnar hjálpuðu þar til. Fólk hefði síður farið í snemminnritun, inngöngum hafi verið fjölgað og fólk ekki komið allt á sama tíma, líkt og nokkuð hafi verið um í gær. Þá eru nokkuð færri á tónleikunum í kvöld en voru í gærkvöldi.
Margir tónleikagesta þurftu að bíða í nokkra klukkutíma eftir því að komast inn á svæðið í gær. Nokkrir lýstu yfir óánægju með fyrirkomulag skipuleggjenda í samtali við fréttamenn á vettvangi. Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri Senu Live og einn skipuleggjenda gaf fréttastofu þær skýringar að hin langa röð hefði m.a. orsakast af því að þeir sem áttu miða í stúku hafi stillt sér upp í stæðisröðinni.
