Rúnar Már Sigurjónsson er kominn með félögum sínum í FC Astana í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir sigur á öðru Íslendingaliði, Bate Borisov, í umspili um sæti í riðlakeppninni.
Rúnar Már spilaði allan leikinn í kvöld er Astana tapaði 2-0 en þeir unnu fyrri leikinn 3-0 og fara því áfram. Willum Þór Willumsson kom inn sem varamaður síðasta stundarfjórðunginn hjá Bate.
Arnór Ingvi Traustason var ónotaður varamaður er Malmö sem vann 1-0 sigur á Bnei Yehuda Tel Aviv í síðari leik liðanna.
Malmö vann fyrri leik liðanna 3-0 og er því komið nokkuð þægilega í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þetta tímabilið.
Kolbeinn Sigþórsson og félagar eru hins vegar úr leik eftir 1-4 tap gegn Celtic í síðari leik liðanna og samanlagt 6-1. Kolbeinn spilaði í 62 mínútur.
Sverrir Ingi Ingason var einnig ónotaður varamaður er PAOK datt óvænt út fyrir Slovan Bratislava þrátt fyrir 3-2 sigur í síðari leik liðanna í Grikklandi í kvöld.
Slovan skoraði því tvö mörk á útivelli en samanlagt endaði einvígið 3-3. Þeir fara því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli og PAOK því óvænt úr leik.

