Lífið

Gyp­sy Rose byrjuð aftur með unnustanum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gypsy Rose afplánar nú tíu ára fangelsisdóm vegna aðildar að morði móður sinnar.
Gypsy Rose afplánar nú tíu ára fangelsisdóm vegna aðildar að morði móður sinnar. youtube/skjáskot
Gypsy Rose Blanchard, ung kona sem skipulagði morð móður sinnar sem hafði neytt hana árum saman til að þykjast vera langveik, er byrjuð aftur með unnusta sínum en parið sleit trúlofuninni stuttlega. People greindi frá þessu á vef sínum.

Á miðvikudag sagði stjúpmamma Blanchard, Kristy Blanchard, í samtali við fréttastofu InTouch að „þau væru byrjuð aftur saman.“

„Þau eru trúlofuð en þau eru að taka hlutunum rólega og vilja ekki mikla athygli vegna sambandsins,“ bætti hún við.

Aðeins fyrsta nafn mannsins sem Gypsy er trúlofuð hefur verið birt opinberlega en hann heitir Ken.

Parið hafði þekkst í eitt og hálft ár áður en þau byrjuðu saman. Þau kynntust þannig að Ken skrifaði Gypsy bréf á meðan hún var í fangelsi og fóru þau að skrifast á. Þau tilkynntu trúlofunina í apríl.

„Við kunnum mjög vel við hann og vonumst til að kynnast honum betur,“ sagði Kristy í samtali við People í Júlí. „Hann elskar Gypsy mjög mikið og það er alveg bersýnilegt þegar hann talar um hana og horfir á hana.“



Gypsy Rose afplánar núna tíu ára fangelsisdóm vegna aðildar að morði móður sinnar sem var stungin til dauða í júní árið 2015. Móðir hennar, Dee Dee Blanchard, hafði neytt Gypsy Rose í mörg ár að þykjast vera langveik og var Gypsy misnotuð af móður sinni.

Sambandið við Ken er fyrsta rómantíska samband Gypsy síðan hún var með Nicholas Godejohn, manninum sem myrti móður hennar. Godejohn var dæmdur fyrir morð af ásetningi og afplánar nú lífstíðardóm án vonar um reynslulausn. Hann myrti Dee Dee til að hjálpa Gypsy að flýja misnotkun af hálfu móður hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×