Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti í morgun er gert ráð fyrir því að 400 milljónum verði varið í styrki til einkarekinna fjölmiðla.
Þá hækka fjárframlög til RÚV um 190 milljónir króna í samræmi við áætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti frumvarp sitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla síðastliðið vor. Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn en Lilja náði ekki að leggja frumvarpið fyrir þingið.
Eins og Vísir greindi frá í maí síðastliðnum stóð frumvarpið í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeim þykir það skjóta skökku við að miðlar á markaði njóti ríkisstyrkja.
Þá hermdu jafnframt heimildir Vísis að með frumvarpinu væri ekki tekið með afgerandi hætti á stöðu RÚV á samkeppnismarkaði.
Miðað við fjárlagafrumvarp næsta árs má gera ráð fyrir að frumvarp Lilju um stuðning við einkarekna fjölmiðla komi nú fram að nýju. Samkvæmt frumvarpi fjárlaga er gert ráð fyrir að 50 milljónir af þeim 400 sem miðlarnir eiga að fá renni til textunar og talsetningar.
400 milljónir eyrnamerktar einkareknum fjölmiðlum

Tengdar fréttir

Lækka tekjuskatt hraðar en áformað var
Lækkunin mun koma að fullu fram árið 2021 í stað 2022.

Vaktin: Allt það helsta sem þú þarft að vita um fjárlagafrumvarpið 2020
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í dag rumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020. Blaðamannafundur hófst í fjármála-og efnahagsráðuneytinu klukkan 8:30 og var Vísir með beina útsendingu þaðan.

Persónuafsláttur lækkar um rúmar 5.000 krónur á næstu tveimur árum
Lækkunin kemur til framkvæmda í lok innleiðingar nýs skattkerfis árið 2021.