Allar FCK treyjurnar seldust upp á fyrsta sólarhringnum eftir að fréttist af samningi Bendtner við danska félagið.
Nú er áhuginn svo mikill að fyrsti leikur Nicklas Bendtner fyrir FC Kaupamannahöfn verður að vera spilaður á bak við lokaðar dyr.
Ástæðan fyrir því að engum áhorfendum verður hleypt inn á leikinn er að forráðamenn FCK óttast það að æfingavöllurinn myndi fyllast af fólki og þeir myndu ekki ráða við eitt eða neitt.
'It's gone wild': Nicklas Bendtner to make first FC Copenhagen appearance behind closed doors for fear of overcrowding. By @m_christensonhttps://t.co/GRqc0kqG0h
— Guardian sport (@guardian_sport) September 5, 2019
Hinn 31 árs gamli Nicklas Bendtner kom til danska félagsins á frjálsri sölu en hann hefur spilað erlendis síðan að hann var sextán ára þar af í langan tíma með Arsenal en nú síðast með Rosenborg í Noregi.
Þetta verður fyrsti fótboltaleikur Nicklas Bendtner síðan 28. apríl en umræddur æfingaleikur er á móti nágrönnunum í Bröndby og fer hann fram á þriðjudaginn kemur.
„Þetta er klikkað. Ég held að markaðsdeildin okkar hafi aldrei lent í svona áður. Við þurfum örugglega að fara aftur til Preben Elkjær á níunda áratugnum til að finna annan danskan leikmann sem hefur svona mikla hetjustöðu meðal danskra knattspyrnuáhugamanna,“ sagði Ståle Solbakken stjóri FCK.
„Þessi leikur er á móti Bröndby og það er alltaf eins og stríð. Það er ekki mögulegt að hleypa fólki inn. Það myndu koma stuðningsmenn frá báðum félögum og allt í einu væru við komin með þrjú til fjögur þúsund manns á æfingaleik. Við ráðum ekki við það á okkar æfingavelli,“ sagði Solbakken.