Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með Ásgeir Jónssyni, seðlabankastjóra, og Gylfa Zoëga, nefndarmanni í peningastefnunefnd, var farið yfir stöðuna í hagkerfinu og þeirra spurningu varpað fram hvað orsakaði samdrátt í ferðaþjónustu. Á fundinum sagði seðlabankastjóri að íslenska hagkerfið væri á leið í niðursveiflu eftir átta ára samfelldan vöxt. Hann sagði að samdrátturinn yrði vægur, 0,2% á þessu ári en að hagkerfið myndi taka aftur við sér á næsta ári.
„Seðlabankinn býr þar að auki yfir öflugum gjaldeyrisforða til þess að geta tryggt stöðugleika ef til þess kemur og þegar til lengri tíma er litið hefur vaxtastig verið að hliðrast niður og við erum þá að færast nær öðrum löndum hvað það varðar. Hins vegar, meðal vestrænna ríkja þykir það forréttindi að geta lækkað vexti, það sem aðrar þjóðir í kringum okkur geta ekki gert,“ sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri á fundinum.
Erfið staða ferðaþjónustunnar var sérstaklega rædd. Gylfi Zoëga sagði launakostnaðinn innan greinarinnar of háan og að hlutfall launa í heildartekjum ferðaþjónustufyrirtækja of hátt. Þar til tók hann sérstaklega íslensku flugfélöginen tvö þeirra, Primera Air og WOW air, fóru á hausinn.
Gylfi bað þingmenn á fundinum að fylgjast með stöðu Icelandair og velti því upp hvenær eigið fé flugfélagsins yrði komið á hættustig.
„Hætturnar sem steðja að núna eru þessar efnahagsreikningahremmingar ferðaþjónustunnar. Mig langar sérstaklega að beina athygli ykkar að þessu stóra flugfélagi sem að við byggjum svo mikið á. Hvað er að gerast þar? Ef þið reikning fram í tímann, hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig. Það má ekki veðja þjóðarbúinu á það að þeir fái bætur frá Boeing. Við vitum ekki hvenær þær koma, hvað þær verða miklar og það er eitthvað sem þið verðið að huga að,“ sagði Gylfi Zoëga, nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.