Kappræðurnar fóru fram í Houston í Texas og kom til nokkuð harðra deilna á milli Joe Biden, sem er talinn líklegastur samkvæmt skoðanakönnunum og Elizabeth Warren og Bernie Sanders um framtíðarfyrirkomulag heilbrigðiskerfisins í Bandaríkjunum.
Þau Sanders og Warren vilja bæði ganga mun lengra í því að efla heilsugæslu í landinu en Biden varaði við því að slíkar aðgerðir væru allt of kostnaðarsamar.
Að neðan má sjá samantekt Time um hápunkta kappræðnanna.
BBC segir frá því að Beto O‘Rourke, fyrrverandi þingmaður Texas, hafi fengið eitt mesta lófatak kvöldsins meðal áhorfenda þar sem hann ræddi nauðsyn þess að herða skotvopnalöggjöf landsins.
Umbætur á heilbrigðiskerfi landsins hefur verið eitt helsta deilumál frambjóðenda demókrata það sem af er kosningabaráttunni. Biden gagnrýndi umbótatillögur Sanders og sagði þær of dýrar í framkvæmd og sagði þess í stað betra að bæta sjúkratryggingakerfið sem forsetinn fyrrverandi Barack Obama kom á í sinni forsetatíð.
Þeir frambjóðendur sem þátt tóku í kappræðunum, auk Biden, Warren, O‘Rourke og Sanders voru viðskiptamaðurinn Andrew Yang, öldungadeildarþingmennirnir Cory Booker, Amy Klobuchar og Kamala Harris, húsnæðismálaráðherrann fyrrverandi Julián Castro og borgarstjórinn Peters Buttigieg.
Að neðan má sjá upphafsorð frambjóðendanna.