„Þetta er mjög undarlegt svo vægt sé til orða tekið,” segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Fyrr í dag fór fram fundur í samgönguráðuneytinu þar sem þingmönnum höfuðborgarsvæðisins og nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd var kynnt efni samkomulags sem undirritað verður á morgun milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna og borgarlínu.
Sjá einnig: Samkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu kynnt þingmönnum
Aftur á móti fengu þingmennirnir ekki að sjá samkomulagið sjálft þrátt fyrir að eftir því hafi verið kallað. „Ég óskaði eftir því fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar en því var hafnað,“ segir Bergþór.
Hann og fleiri þingmenn sem sátu fundinn og fréttastofa hefur rætt við segja að þar hafi í raun fátt nýtt komið fram, umfram það sem þegar hafi mátt lesa úr því sem fjallað hafi verið um í fjölmiðlum. Þeim hafi verið sýnd glærukynning en lítið hafi komið fram efnislega er varðar samkomulagið, útfærsluatriði og annað.
