Þá voru möguleg starfslok Haraldar rædd í sumar, þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hélt utan um dómsmálin tímabundið, en samkomulag á milli hans og ráðuneytisins um starfslok varð að engu.
Málefni Haraldar og lögreglunnar voru til umræðu á fundi ríkisstjórnar í gærmorgun. Dómsmálaráðherra sagði að Haraldur ætlaði ekki að stíga sjálfur til hliðar, í samtali við frettabladid.is, að ríkisstjórnarfundinum loknum.
Í bréfi sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, sendi lögreglustjórum allra níu lögregluumdæmanna í síðustu viku og varðar sívaxandi óánægju innan lögreglunnar, sem beinist sérstaklega að þætti ríkislögreglustjóra, segir að togstreita á milli manna hafi verið áberandi undanfarið.

Í bréfinu leggur ráðherra jafnframt mikla áherslu á að við vinnuna verði kortlagt í hvaða skrefum rétt kann að vera að gera breytingar á skipulagi lögreglu og hvaða skref, ef einhver, væri unnt að stíga strax til að bregðast við þeim vanda sem nú er uppi.
Ráðuneytið muni leita til forystumanna lögreglu og annarra sem málið varðar á komandi vikum. Í bréfinu er þess óskað að lögregluembættin verði ráðuneytinu innan handar í þeirri vinnu sem fram undan er.
Ljóst er að lögreglumenn um allt landið eru óánægðir með störf og í einhverjum tilfellum framkomu Haraldar, en í fyrradag lýstu átta af níu lögreglustjórum yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra – allir nema Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Landssamband lögreglumanna samþykkti einnig vantraust á Harald.
Ráðherra mun funda með lögreglustjórum, sérsveitinni, öðrum lögreglumönnum og starfsmönnum löggæslunnar á næstu dögum og viðra hugmyndir sínar um sameiningu embætta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra.