Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - KA 25-32 | Fyrstu stig KA í hús

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/bára
KA sótti sín fyrstu stig í Grafarvoginn í dag þegar þeir lögðu Fjölni að velli með 32 mörkum gegn 25. KA komst í 7-0 í upphafi leiks og lifði á því forskoti það sem eftir lifði leiks.

Það tók heimamenn tæpan stundarfjórðung að mæta til leiks en þeirra fyrst mark kom á 14. mínútu, þá minnkaði Brynjar Óli Kristjánsson, muninn í 1-7. Þetta mark kveikti í leikmönnum og aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðinn 4-10. Hátt tempó var í leiknum um miðbik fyrri hálfleiks og lítið um uppstilltar sóknir en mikið af mörkum duttu inn. 

Heimamenn urðu fyrir áfalli á 15. mínútu þegar Breki Dagsson meiddist og gat ekki tekið meira þátt í leiknum og aftur 7 mínútum síðar þegar Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha var borinn af velli og lauk þar með leik í fyrri hálfleik.

Það voru gestirnir sem leiddu með 6 mörkum þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 11-17.

Það urðu litlar breytingar á framvindu leiks í síðari hálfleik. Gestirnir að norðan héldu nýliðunum alltaf í góðri fjarlægð. Fjölni tókst að minnka leikinn niður í fimm mörk, þjálfarar KA tóku þá leikhlé og komu þar í veg fyrir frekari spennu, lengra komust heimamenn ekki og leiknum lauk með sjö marka sigri KA, 25-32.

KA menn voru sterkari á öllum sviðum handboltans.vísir/bára
Af hverju vann KA? 

Eftir hreint út sagt afleidda byrjun hjá Fjölni þá hafði KA 7 mörk í forgjöf sem auðvelt var að vinna með. KA sýndi góðan leik á öllum vígstöðvum, Jovan Kukobat varði vel, vörnin var aggresív og sóknarlega voru þeir skynsamir. Þessi samblanda skilaði þeim þessum sigri í dag. 

Hverjir stóðu upp úr?

Daði Jónsson var algjör klettur í vörninni hjá KA, var með 11 löglegar stöðvanir og þar fyrir aftan var Jovan Kukobat með 45% markvörslu, eða 15 bolta varða. Vörn og markvarsla stóð upp úr hjá KA í dag og það skilaði þeim góðum mörkum frá Degi Gautasyni sem skoraði 7 mörk í leiknum, þar af 5 úr hraðaupphlaupum. 

Brynjar Óli Kristjánsson var atkvæðamestur í liði heimamanna með 8 mörk. Hann steig upp í fjarveru Breka Dagssonar. 

Hvað gekk illa? 

Fyrst og fremst fyrsta korterið hjá Fjölni, það gekk ekkert hjá þeim. Þeir skoruðu fyrsta markið á 14. mínútu leiksins og leikurinn bar þess merki það sem eftir lifði. Fjölnir átti, einna helst, í miklum erfiðleikum með að skora úr uppstilltum sóknarleik. 

Hvað er framundan? 

Í fjórðu umferð mætir Fjölnir Stjörnunni í Garðabæ á meðan KA fær ÍR í heimsókn norður til Akureyrar.

Brynjar Loftsson var brjálaður í leikslok.vísir/bára
Brynjar: Við vorum með hausinn upp í rassgatinu á okkur

„Við vorum bara ekki tilbúnir í þennan leik,“ sagði Brynjar Loftsson, leikmaður Fjölnis, eftir skellinn gegn KA í dag í Olís-deild karla.

Fjölnismenn byrjuðu skelfilega og skoruðu ekki mark fyrstu ellefu mínútur leiksins.

„Við vorum með hausinn uppí rassgatinu á okkur og vorum okkur til skammar. Þetta er ekki það sem við viljum standa fyrir.“

„Þegar maður byrjar svona illa þá er rosa erfitt að ætla að koma til baka og byrja leikinn í stöðunni 7-0. Sérstaklega á móti liði eins og KA sem sýndi miklar baráttu og stemningu í dag.“

„Eftir að við komumst inní leikinn, þá héldu þeir samt alltaf þessari forystu. Við náðum aðeins að saxa á þetta en þeir voru alltaf einu skrefi á undan okkur. Við áttum aldrei séns í dag, eins einfalt og það er.“

Þrátt fyrir að liðið hafi komist inní leikinn þá segir Brynjar að hann geti ekki tekið neitt jákvætt með sér úr þessum leik og að það sé eins gott að liðið sýni ekki slíka frammistöðu aftur.

„Mér finnst ekkert jákvætt við þetta, mér fannst þetta ömurlegur leikur. Það vantaði uppá allt á öllum sviðum. Ef þetta er ekki spark í rassgatið, þá veit ég ekki hvað á að gera við okkur.“

Breki Dagsson og Hafsteinn Óli meiddust um miðbik fyrri hálfleiks og gátu ekki tekið meira þátt í leiknum. Brynjar viðurkennir að það sé vissulega áfall fyrir þá að missa þessa leikmenn út en að þetta sé hluti af leiknum og þess vegna séu þeir með menn á bekknum sem eigi að stíga upp við þessar aðstæður.

„Auðvitað er mjög mikið áfall að missa til dæmis Breka sem er leiðtoginn í sókninni og Hafsteinn auðvitað góður líka. Þetta er erfitt en við erum með 14 menn á skýrslu og menn þurfa þá bara að stíga upp á svona mómentum,“ sagði Brynjar að lokum.

Þjálfarateymi KA lagði leikinn vel upp í dag.vísir/bára
Stebbi Árna: Við gáfum tóninn strax í upphafi

„Ég er gífurlega ánægður með strákana og leikinn í heild“ sagði Stefán Árnason, þjálfari KA. 

„Við áttum góða viku í undirbúningi og það sýndi sig, við gáfum tóninn strax í upphafi leiks og lögðum þar gruninn að þessum sigri“ 

„Við bjuggumst ekki við svona byrjun en vorum klárir á því að við myndum mæta vel inní leikinn. Við ætluðum að byrja sterkt, náðu strax upp vörninni og fengum hraðaupphlaup. Það var einhver auka krafur í liðinu, auka neisti og við gáfum allt í þetta“ sagði Stefán sem bætir því við að það hafi allt fallið með þeim í dag

KA leiddi, þegar mest lét með níu mörkum, en missti leikinn niður í fimm mörk. Lengra hleyptu þeir Fjölni ekki og segir Stefán að þeir hafi verið klaufar á þessum tímapunkti en að þeir læri af þeim mistökum

„Við vorum töluverðir klaufar í upphafi seinni hálfleiks sem gerir það að verkum að við náum aldrei að slíta þá meira af okkur en það. Við fengum á okkur ódýrar brottvísanir sem er kannski eitthvað sem við þurfum að læra í svona leik.“ 

„Það sem við tökum úr þessum leik er sóknarleikurinn, við náðum að láta boltann vinna og menn fóru að vinna þetta meira saman. Þessi leikur var okkur langbesti sóknarlega til þessa.“ sagði Stefán að lokum

Kári Garðars: Þeir hentu okkur út úr leiknum

„Við settum enga pressu á þá“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, að leik loknum.

„Við vorum engan veginn tilbúnir í þennan slagsmála pakka sem KA bauð uppá, við bökkum útúr fyrstu 7-8 mínútunum, lendum 7-0 undir. Við töpum svo leiknum með sjö mörkum svo það má í einföldum heimi skrifa þetta tap á það.“

„Við náðum aldrei að gera einhverja atlögu að þeim, þetta var komið í 9 mörk í fyrri hálfleik en við fórum inní hálfleikinn með 6 mörk, svo það má að einhverju leyti vera ánægður með þá stöðu“ sagði Kári sem reyndi að taka eitthvað jákvætt út úr þessum leik en bætir svo enn fremur við

„Við settum enga pressu á þá að ráði, en það eru alveg kaflar, sérstaklega í síðari hálfleik, sem voru fínir hjá okkur. Auðvitað hefði ég viljað veita KA miklu meiri keppni en við gerðum í dag, þeir hentu okkur útúr leiknum á örskammri stundu, við vorum sjálfum okkur verstir þá“

Eins og áður hefur verið komið inná að þá missti Kári ekki aðeins einn lykilmann út heldur tvo vegna meiðsla í þessum leik og það reyndist ansi erfitt að koma til baka 7 mörkum undir og vinna þá forystu upp án þeirra félaga í sókninni, Breka Dagssonar og Hafsteins Óla Ramos Rocha

„Þetta eru algjörir lykilpóstar sem spiluðu frábærlega í síðasta leik. Það var erfitt að lenda í því ofan í þá pressu sem KA setti á okkur. Enn þeir stóðu sig vel Brynjar Óli (Kristjánsson) og Goði (Ingvar Sveinsson) sem inn í þeirra stað.“ sagði Kári að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira