Handbolti

Erlingur: Áttum þetta eiginlega ekkert skilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlingur ræðir við sína menn.
Erlingur ræðir við sína menn. vísir/daníel
„Við áttum þetta eiginlega ekkert skilið. Ég verð að vera hreinskilinn með það. Auðvitað er ég glaður að vinna,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, eftir sigurinn á Val, 25-26, í kvöld.

„Þetta var köflóttur leikur af beggja hálfu. Við vorum ekki nógu heilsteyptir en ég er sáttur með baráttuna í lokin.“

Eyjamenn voru þremur mörkum undir í hálfleik, 15-12. Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu undirtökunum í byrjun hans.

„Við vorum aðeins baráttuglaðari í seinni hálfleik og lögðum meiri sál í þetta. Sóknarnýtingin var döpur og markvarslan, fram í miðjan seinni hálfleik, var ekkert sérstök. En síðan tók Björn [Viðar Björnsson] við sér,“ sagði Erlingur.

ÍBV hefur unnið alla fjóra leiki sína í Olís-deildinni á tímabilinu. Erlingur er vitaskuld ánægður með uppskeruna til þessa en segir að Eyjamenn eigi meira inni.

„Við erum með sterkt lið og við viljum sjá betri frammistöðu. En við lögðum okkur fram í 40 mínútur í leiknum í kvöld og það dró okkur kannski að landi,“ sagði Erlingur að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×