Trump lýsir yfir stríði við þingið

Demókratar eru að rannsaka Trump fyrir embættisbrot vegna símtals hans við Volodymir Zelensky, forseta Úkraínu, þar sem hann þrýsti á Zelensky að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn. Biden þykir líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrataflokksins til forsetakosninganna 2020 og auk Úkraínu hefur Trump einnig kallað eftir því að yfirvöld Kína rannsaki fjölskyldu Biden.
Samkvæmt lögum Bandaríkjanna er ólöglegt að þiggja hjálp erlends ríkis í kosningabaráttu.
Sjá einnig: Úkraínumenn ætla að rannsaka son Biden
Pat Cipollone, yfirlögmaður Hvíta hússins, hefur sent bréf til forsvarsmanna Demókrataflokksins fyrir hönd Trump þar sem hann segir rannsókn þingmanna á mögulegum embættisbrotum Trump meðal annars vera gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna og ósanngjarna. Bréfið inniheldur fjölmarga innihaldslausa sleggjudóma um rannsókn Demókrata og sannleikurinn er afbakaður víða í því.
Cipollone segir þar að auki að með rannsókninni sé verið að brjóta á réttindum forsetans. Hann segir markmið rannsóknar Demókrata vera að snúa við sigri Trump í forsetakosningunum 2016.
Fyrr í dag kom Trump í veg fyrir að sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu svaraði spurningum þingmanna. Gordon D. Sondland, auðugur hótelrekandi og fjárhagslegur bakhjarl Repúblikanaflokksins sem varð sendiherra Bandaríkjastjórnar gagnvart Evrópusambandinu, átti að koma fyrir nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til að bera vitni í rannsókn á mögulegum embættisbrotum Trump í morgun.
Demókratar, sem fara með meirihluta í fulltrúadeildinni, hafa ítrekað sagt að reyni Hvíta húsið að leggja stein í götu rannsóknarinnar jafngildi það því að það hindri framgang hennar, nokkuð sem gæti verið sérstök ástæða til að kæra Trump fyrir embættisbrot.
Þingmaðurinn Adam Schiff sagði í dag að það að Sondland hafi verið meinað að mæta á fund þingmanna væri í raun sterk vísbending um hindrun ríkisstjórnar Trump á stjórnarskrárbundnu hlutverki þingsins, sem eigi að standa jafnfætis framkvæmdavaldinu. Demókratar hafa nú stefnt sendiherranum og er honum gert að afhenda þinginu þau gögn sem sóst er eftir fyrir 14. október og mæta á fund þingmanna tveimur dögum seinna.
New York Times segir ráðgjafa og lögmenn Trump hafa varið síðustu dögum í að skoða það hvernig best sé að verjast rannsókn þingmanna og bréf Cipollone gefi til kynna að þeir eigi betri líkur á að verjast kæru með því að hindra aðgang þingmanna að gögnum. Fjölmiðillinn hefur þó heimildir fyrir því að þingmenn Repúblikanaflokksins hafi ráðlagt Trump að leyfa vitnum að svara spurningum þingmanna í stað þess að gefa Demókrötum færi á því að halda fram að Hvíta húsið sé að hindra störf þingsins.
Tengdar fréttir

Otuðu sínum tota á meðan Trump sakaði Biden um spillingu
Bandarískir athafnamenn notfærðu sér tengsl við Trump forseta og lögmann hans til að reyna að koma ár sinni fyrir borð hjá stóru úkraínsku orkufyrirtæki.

Annar uppljóstrari stígur fram
Mark Zaid, lögmaður uppljóstrarans sem greindi frá samskiptum Donald Trump Bandaríkjaforseta og erlends þjóðarleiðtoga segir annan uppljóstrara hafa stigið fram í málinu.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar skrifuðu yfirlýsingu fyrir Úkraínuforseta um rannsókn á Biden
Fyrrverandi sendifulltrúi Bandaríkjanna í Úkraínu bar vitni fyrir þingnefnd í dag. Hann segist hafa varað við því að ásakanir gegn Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, ættu ekki við rök að styðjast.

Trump kallar eftir því að yfirvöld Kína rannsaki Biden
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kallaði eftir því í dag að yfirvöld Kína rannsaki Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn, og son hans, Hunter Biden.

Óvissa um eftirrit af símtali Trump og Zelensky
Núverandi og fyrrverandi starfsmenn Hvíta hússins, segja eftirrit af símtali Donald Trump og Volodymir Zelensky, forsetum Bandaríkjanna og Úkraínu, bera ummerki þess að hluti samskipta þeirra hafi verið fjarlægður.

Repúblikanar vildu einnig láta reka saksóknarann úkraínska
Nokkrir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins kölluðu eftir endurbótum á embætti ríkissaksóknara Úkraínu, um svipað leyti og Joe Biden gerði hið sama.

Krefja Pence varaforseta um gögn vegna þrýstings á Úkraínu
Rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á mögulegum embættisbrotum Trump forseta er hafin af fullum þunga.