Innlent

Guð­mundur Ingi sækist eftir vara­for­manns­sæti VG

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Fréttablaðið/Anton
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Fréttablaðið/Anton
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hyggst sækjast eftir varaformannssæti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á landsfundi flokksins sem mun fara fram í október.

Guðmundur hefur setið sem umhverfis- og auðlindaráðherra frá árinu 2017.

Í framboðstilkynningu sinni sem hann birti á Facebook síðu sinni leggur hann mikla áherslu á að umhverfismál verði áfram í brennipunkti.

„Ég vil að árið 2030 getum við litið til baka og sagt að okkur hafi tekist að takast á við loftslagsvána og það með félagslegt réttlæti og náttúruvernd að leiðarljósi. Loftslagsváin snertir okkur öll sem búum í þessum heimi. Það er stórt réttlætismál að aðgerðir í loftslagsmálum geti nýst umhverfi og náttúru og á sama tíma tekist á við efnahagslegt misrétti, “ skrifar Guðmundur.

Hann segir nauðsynlegt að grænu málin verði meginstefnumál og fái meira vægi hjá stjórnmálaflokkum. Umhverfisfræði séu þverfagleg og þurfi að tengja þau öðrum málaflokkum, þar á meðal samgöngumálum, skipulagsmálum, heilbrigðismálum og svo framvegis.

„Kæru vinir, mig langar að vinna áfram að baráttumálum mínum og annarra umhverfis- og náttúruverndarsinna á vettvangi stjórnmálanna, eins og ég hef gert undanfarin tæp tvö ár og stuðla að því að grænu málin fái sem mestan sess í Íslenskum stjórnmálum,“ skrifar Guðmundur. „[Ég] hef því ákveðið að bjóða mig fram til varaformanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins nú í október.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×