Tryggingafélagið TM tók þátt í skuldabréfaútboði Gamma:Nova í vor og var staða félagsins þá sögð sterk og eigið fé sagt 4,4 milljarðar. Þá á Sjóvá hlutdeildarskírteini í Gamma Novus. Eins og fram hefur komið var eigið fé síðan fært niður um 99% á mánudag og ástæðurnar sagðar endrumat, kostnaðarauki og aðrar uppgjöraðferðir nýrra stjórnenda. Sama dag sendu tryggingafélögin frá sér afkomuviðvaranir í Kauphöll vegna stöðunnar.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir að fulltrúa félagsins hafi átt fund með nýjum stjórnendum Gamma í gær í þeim tilgangi að afla upplýsinga og gagna. Það sé þó ljóst að Sjóvá áskilji sér allan rétt, t.d. um að fram fari óháð könnun á því hvað fór úrskeiðis í rekstrinum.
Hins vegar sé of snemmt að segja til um til hvaða aðgerða verði gripið.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í fréttum Stöðvar 2 á mánudag að þetta gæti ýtt af stað iðgjaldahækkunum hjá tryggingafélögunum. Hermann segir að iðgjöld félagsins hækki ekki af þessum ástæðum og í svari frá TM kom fram að málið hefði engin áhrif á iðgjöld hjá þeim.

Gamma:Novus þarf nýtt fjármagn
Máni Atlason framkvæmdastjóri Gamma segir að nú sé öllum árið róið að því að verja verðmæti kröfuhafa í Gamma:Novus.„Við teljum okkur hafa lagt fram trúverðuga áætlun um það hvernig við getum varið verðmæti kröfuhafa og höfuðstól skuldabréfsins og stóran hluta af vöxtunum en til þess að það gangi þá þurfa lánveitendur að vinna með okkur og við þurfum að safna auknu fjármagni,“ segir Máni.
Aðspurður að því hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað kringum rekstur Gamma:Novus segir Máni.
„Ég geri ekki ráð fyrir neinu í þeim efnum. Ég sá umfjöllun Fréttablaðsins í gær en við munum rannsaka málið og viljum koma til botns í því en spörum stór ár þangað til við komum til botns í málinu. Við tilkynntum málið til Fjármálaeftirlitsins fyrir nokkrum dögum og munum halda þeim upplýstum,“ segir Máni.