Erlent

Á­rásar­maðurinn í Kuopio al­var­lega særður

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í Savolax-starfsmenntamiðstöðinni í Herman-verslunarmiðstöðinni í Kuopio.
Árásin átti sér stað í Savolax-starfsmenntamiðstöðinni í Herman-verslunarmiðstöðinni í Kuopio. AP
Maðurinn, sem drap einn og særði tíu í sverðaárás í starfsmenntamiðstöð í finnsku borginni Kuopio í morgun, er alvarlega særður. Talsmenn finnsku lögreglunnar segja að hann dvelji nú á sjúkrahúsi í borginni, undir eftirliti lögreglu og lækna.

Lögregla segir að árásarmaðurinn sé finnskur ríkisborgari, fæddur í Finnlandi.

Lögreglu barst tilkynning klukkan 12:37 þar sem greint var frá því að maður vopnaður sverði hafi drepið einn og sært fjölda manns í starfsmenntamiðstöð í verslunarmiðstöðinni Herman, suður af miðborg Kuopio.

YLE segir frá því að lögregla hafi notast við skotvopn þegar maðurinn var yfirbugaður. Árásarmaðurinn hafi bæði verið vopnaður sverði og skotvopni. Einn þeirra sem særðist er lögreglumaðurinn, en sár hans eru ekki alvarleg. Sár tveggja hinna særðu eru sögð alvarleg.

Lögregla girti af stórt svæði í kringum árásarstaðinn. Verslunarmiðstöðinni var lokað og er vel hugsanlegt að svo verði einnig á morgun.

Kuopio er að finna um 350 kílómetrum norður af Helsinki, höfuðborg Finnlands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×